Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Efling segir Eldum rétt fara með rangfærslur

03.07.2019 - 17:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Efling stéttarfélag segir fyrirtækið Eldum rétt bregðast við fréttum af skaðabótamáli Rúmenanna fjögurra, sem unnu hjá starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu, með útúrsnúningum og rangfærslum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.

Fyrirtækjunum Eldum rétt og Mönnum í vinnu var stefnt vegna meðferðar þeirra á fjórum rúmenskum verkamönnum sem unnu þar í vetur. Eldum rétt nýtti sér þjónustu starfsmannaleigunnar Manna í vinnu.

Hafi vísað allri ábyrgð á bug

Í tilkynningu Eflingar segir að fyrirtæki sem versli við starfsmannaleigur sleppi ekki undan skyldum gagnvart starfsfólkinu. Það sé ljóst í lögum um starfsmannaleigur sem hafi verið uppfærð í fyrra til að herða á þeim skyldum.

Í tilkynningu Eflingar segir að Eldum rétt hafi svarað kröfum verkamannanna með harðorðu bréfi eftir dágóða bið og vísað allri ábyrgð á bug. 

Hins vegar hafa þrjú önnur fyrirtæki sem tengist málinu umsvifalaust gengist við sinni lögbundnu ábyrgð og hafið samtal við Eflingu, segir í tilkynningunni. 

Þar segir að það veki furðu að Eldum rétt hafi sett hörku í málið í ljósi þeirra aðstæðna sem rúmensku verkamennirnir voru látnir búa við. Í tilkynningunni segir einnig að svo virðist sem forsvarsmenn fyrirtækisins reyni nú að grugga vatnið þegar lögsóknin sé til umtals í fjölmiðlum. 

Telja ákvæði ráðningarsamninga vafasöm

Þá segir í tilkynningunni að Eldum rétt virðist hafa kynnt sér efni ráðningarsamninga starfsmannanna við Menn í vinnu en ákvæði samninganna séu í meira lagi vafasöm.

„Að stjórnendur Eldum rétt hafi kynnt sér samninginn og álitið hann eðlilegan kemur á óvart, ekki síst í ljósi sögu starfsmannaleigunnar,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir að vinnuveitendum hafi verið gefið einhliða vald til að skuldfæra allt frá húsaleigu til líkamsræktarkorts af launum fyrir fram, samkvæmt samningunum. Starfsmönnunum hafi verið fyrirvaralaust vísað úr híbýlum sínum peningalausum, með vísun í fyrrnefndan samning. 

Þá skorar Efling á atvinnurekendur að skipta ekki við starfsmannaleigur og reyna ekki að drepa á dreif ábyrgð sinni í slíkum viðskiptum, segir í tilkynningunni. 

Segjast taka fulla ábyrgð

Eldum rétt sendi frá sér tilkynningu vegna málsins fyrr í dag þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins segjast taka fulla ábyrgð á því að hafa nýtt sér þjónustu Manna í vinnu, en harma ef starfsmennirnir fjórir hafi verið beittir órétti af hálfu starfsmannaleigunnar.