Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Efast um þátttöku í samevrópska orkukerfinu

04.04.2018 - 17:00
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Þingmaður Vinstri grænna vill að skoðað verði hvort rétt sé að Ísland verði áfram hluti af regluverk Evrópusambandsins um orkumál. Hann óttast að samevrópska orkumálakerfið geti komið í veg fyrir að hægt verði að nýta orkuauðlindirnar hér til að gera ísland kolefnishlutlaust fyrir árið 2040.

Það liggur fyrir að að fljótlega eftir að Alþingi kemur saman að loknu páskafríi taki þingmenn afstöðu til þriðju tilskipunar ESB í orkumálum sem yfirleitt gengur undir nafninu þriðji orkupakkinn. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ályktað gegn þessari tilskipun. Í ályktun Sjálfstæðisflokksins segir:

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnanna Evrópusambandsins.

Og flokksþing framsóknarmanna ályktaði í síðasta mánuði.

Framsóknarflokkurinn stendur vörð um um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

VG hefur efasemdir um þriðja orkupakkann

Vinstri græn hafa ekki ályktað sérstaklega um orkumálin  einfaldlega vegna þess að flokkurinn hefur ekki haldið landsfund nýverið. En hvers er afstaða flokksins í þessu máli? Kolbeinn Óttarsson Proppé situr í atvinnuveganefnd Alþingis og mun sitja í þverpólitískum hópi um orkustefnu. Hann segir ekkert launungarmál að flokkurinn setji spurningarmerki við margt í þriðja orkupakkanum.

„Sjálfur geri ég marga og mikla fyrirvara við þetta. Ekki endilega bara innihald þessa þriðja orkupakka Evrópusambandsins heldur hvert við stefnum í raun og veru í þessu samevrópska orkukerfi í heild sinni,“ segir Kolbeinn.

Hefur minni áhrif hér en í öðrum löndum

Þriðju orkupakkinn snýst um sameiginlegan orkumarkað Evrópusambandsins sem Norðmenn eru hluti af vegna þess að þeir eru tengdir honum með sæstrengjum og flytja út og inn rafmagn. Það er gerður stjórnskipunarlegum fyrirvari við innleiðinguna vegna þess að í henni fellst framsal á valdi til  sameininglegrar orkustofnunar ACER, samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði. Framsalið verður ekki beint til stofnunarinnar því EFTA löndin hafa samið um að ESA eftirlitsstofnun EFTA talki við hlutverki ACER gagnvart EFTA-löndunum. En í raun er það þannig að ESA verður einskonar milliliður. Yfirþjóðlega valdið fellst í því að ACER getur þegar ágreiningur verður milli landa um orkumarkaðinn í Evrópu tekið ákvörðun sem löndin verða að lúta.

„Þessi þriðji orkupakki hefur minni áhrif hér heldur enn í mörgum öðrum löndum. Það er að segja á meðan við erum ekki tengd evrópska markaðinum beint,“ segir Kolbeinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Óvissa um lagaleg og pólititísk áhrif

Hann segir að þingmenn verði að setjast yfir málið. Ekki sé hægt að ætlast til þess að þingið afgreiði það án þess að fara ítarlega yfir það. Þriðji orkupakkinn var nýverið samþykktur á norska Stórþinginu. Þar voru reyndar skiptar skoðanir. Verkalýðshreyfingin var á móti og systurflokkur VG Sósíalski vinstriflokkurinn greiddi atkvæði gegn honum.  Öll EFTA ríkin þrjú , Ísland, Noregur og Liechtenstein verða að samþykkja tilskipunina til að hún öðlist gildi. Ef Ísland segir nei mun hún því ekki taka gildi í Noregi. Í svari utanríkisráðuneytisins segir að þá muni framkvæmd þessa viðauka frestast til bráðabirgða. Hins vegar séu engin fordæmi fyrir því að eitt EFTA ríki hafni viðauka með með þessum hætti. Margt sé því á huldu hver lagaleg og pólitísk áhrif slíkrar ákvörðunar yrðu.

„Þetta mun augljóslega hafa áhrif, sama hvort við samþykkjum eða höfnum. Þess vegna er það mikilvægt, hver sem ákvörðunin verður, að hún sé tekin á faglegum grunni og að gefinn verði tími til að fara yfir hana,“ segir Kolbeinn. Í ljósi kolefnisjöfnunarinnar séu orkumálin gríðarlega mikilvæg og ekki sé hægt að ætlast til þess að teknar séu ákvarðanir  án þess að það sé skoðað vel.

Spurning um þátttöku Íslands í raforkumálum ESB

Ísland hefur þegar samþykkt tilskipanir sem tengjast þriðja orkupakkanum. Þær fólu meðal annars í sér að orkuframleiðsla og flutningur var aðskilinn og samkeppni á orkumarkaði. Kolbeinn vill að það verðir skoðað hvort rétt sé að Ísland taki þátt í regluverkinu sem tengist orkumálatilskipunum. Hann segir að aðalatriðið sé hvernig við ætlum að nýta orkulindir Íslands. Ríkisstjórnin stefnir að því að Ísland verði kolefnishlutlaust 2040.

Það sé lykilatriði.  Hann spyr hvernig við ætlum við að nýta orkukerfið til að fara í orkuskipti í samgöngum, rafvæðingu hafna og fiskiskipaflotans.

-En eru tilskipanir ESB að koma í veg fyrir að þetta geti átt sér stað?

„Það er það sem við verðum að skoða. Ég var á ráðstefnu um raforkumál á Akureyri um daginn. Þar fullyrti orkumálastjóri í raun að við getum ekki eyrnamerkt orku til ákveðinnar nýtingar í dag því að allt þetta orkukerfi Evrópusambandsins er í raun markaðsdrifið kerfi sem gerir ráð fyrir að orkan sé seld þeim sem borgar hæsta verðið,“ segir Kolbeinn. Hann veltir því fyrir sér hvort við getum nýtt orkuauðlindirnar í samfélagsleg og mikilvæg verkefni til að gera Ísland kolefnislaust.

„Ef þetta er rétt hjá orkumálastjóra að við getum það ekki í dag þá eigum við einfaldlega að vera tilbúin og skoða það hvort að það er rétt að við séum undir þessu kerfi í heild sinni. Við þurfum að ryðja þeim hindrunum úr vegi,ef þær eru í vegi, til að geta gert Ísland kolefnislaust,“ segir Kolbeinn.

Ísland hefur þegar samþykkt  tilskipanir ESB sem tengjast hinum sameininglega orkumarkaði Evrópusambandsins. Spurning er hvort Kolbeinn sé að taka um að vinda ofan af þeim tilskipunum sem þegar hafa verið samþykktar.

„Ég er að tala um að setjast yfir það og skoða hvort að það sé rétt sem ýmsir hafa haldið fram að það kerfi sem við búum við í dag setji okkur á einhvern hátt stólinn fyrir dyrnar um það að ákveða í hvað við viljum nýta orkuna. Ef að sú athugun leiðir í ljós að svo sé þá er ég alveg skýr með það að við eigum að vinda ofan af því. Því að er ekkert mikilvægara á næstu árum í stjórnmálum en það að vinna gegn loftslagsbreytingum. Og ef það er eitthvað í regluverkinu sem kemur í veg fyrir það, sama hvort það er sér íslenskt eða samevrópskt, þá eigum við að hafa kjark til þess að að setjast niður og ákveða að því verði að breyta eða ýta á einhvern hátt til hliðar,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé.