Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Efast um stofnun miðhálendisþjóðgarðs

07.01.2020 - 16:40
Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Sveitarstjóri Bláskógabyggðar efast um að lög um miðhálendisþjóðgarð taki gildi um næstu áramót. Hún segir málið sé alls ekki tilbúið. Hún gagnrýnir meðal annars að verið sé að taka skipulagsvald af sveitarfélögum.

Við sögðum frá því í Speglinum í gær að heimilt verður að reisa virkjanir innan fyrirhugaðs miðhálendisþjóðgarðs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Umhverfissamtök eru ekki sátt við það en væntanlega fagna orkufyrirtækin þessu ákvæði. Umhverfisráðherra mun á næstu dögum halda að minnsta kosti sjö fundi víðs vegar um landið til að kynna hálendisgarðinn. 

Líst ekki á þetta

En sveitarfélög eru ekki sátt, að minnsta kosti ekki þau sem eiga land í fyrirhuguðum þjóðgarði. Þau hafa meðal annars mótmælt því að skipulagsvald þeirra verði skert. Bláskógabyggð er meðal sveitarfélaga sem hafa efasemdir. Ástu Stefánsdóttur sveitarstjóra þar líst ekki á að þjóðgarðurinn verði stofnaður.

„Nei, mér líst ekki á það. Ég tel bara að málið sé ekki tilbúið,“ segir hún.

Eftir eigi að ná samkomulagi við sveitarfélög og hagsmunaaðila. Til dæmis um mörk þjóðgarðsins, hvernig eigi að haga skipulagsmálum og stjórnarfyrirkomulagi. Hún nefnir líkar heimildir til hefðbundinna nytja. Hún segir líka að verið sé að taka skipulagsvald af sveitarfélögum. Hún nefnir að stofnuð verði svæðisráð.

„Þau munu hafa lokaorðið í sínum áætlunum um það hvað sé heimilt að gera á svæðinu og hvað ekki. Eftir því verða sveitarfélögin að fara. Sveitarfélögin í dag hafa þetta skipulagsvald,“ segir Ásta.

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið - RÚV
Mörk miðhálendisþjóðgarðsins. 32% af flatarmáli landsins.

Tvískinnungur

Hún segir að líka sé óvissa um félagasamtök í sveitinni sem vinni heilmikið starf á hálendinu, svo sem við landgræðslu og merkingu á reiðleiðum. Ásta talar um ákveðinn tvískinnung með stofnun þjóðgarðsins þar sem meginmarkmiðið sé að vernda náttúruna.

„Þegar ein megirökin sem ganga í gegnum alla þessa vinnu eru að það eigi að búa til sterkt vörumerki sem laði mikið af fólki til sín finnst okkur dálítill tvískinnungur í þessu. Annars vegar á að vernda og friða og takmarka aðgengi með gjaldtöku og þess háttar og á hinn bóginn á að skapa einhvert vörumerki sem dregur að sér fullt af fólki. Okkur finnst þetta ekki passa saman,“ segir Ásta.

Það hefur verið fullyrt að hver króna sem lögð er í miðhálendisþjóðgarð skili 23 krónum. Ásta efast um þetta. Vissulega komi tekjur af bílastæðum við Jökulsárlón.

„Við sjáum ekki að það séu sömu tekjumöguleikar og þar. Til dæmis uppi á Kili þar sem er engin umferð nema hluta úr ári.“

Hún hefur efasemdir um að lög um miðhálendisþjóðgarð taki gildi um næstu áramót. Hún segir að það sé verið að vinna í málinu og því verði haldið áfram sama hvort lögin taka gildi eða ekki. Þeir sem hafi áhyggjur þurfi að halda áfram að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.