Efast um að Tshisekedi hafi sigrað

20.01.2019 - 16:12
Mynd með færslu
Martin Fayulu (til vinstri) sakar Felix Tshisekedi um að hafa rænt sig sigri í forsetakosningunum. Mynd:
Evrópusambandið dregur í efa að Felix Tshisekedi hafi sigrað í forsetakosningunum í Austur-Kongó á dögununum. Hið sama gerir kaþólska kirkjan í landinu og Afríkusambandið. Sendinefnd frá því er væntanleg til landsins til að fara yfir framkvæmd kosninganna.

Evrópusambandið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem efasemdir eru ítrekaðar um að Tshisekedi hafi fengið flest atkvæði. Stjórnlagadómstóll Austur-Kongós tilkynnti í gærkvöld að Tshisekedi væri rétt kjörinn forseti. Martin Fayulu, mótframbjóðandi hans, kærði úrslitin til stjórnlagadómstólsins. Hann kveðst hafa verið rændur embættinu.

Að sögn dómara tókst Fayulu ekki að leggja fram neinar sannanir fyrir því að rangt hefði verið haft við. Afríkusambandið dregur einnig í efa að úrslitin séu rétt. Forseti og framkvæmdastjóri þess eru væntanlegir til Kinshasa, höfuðborgar Austur-Kongós, á morgun til að fara yfir málið með ráðamönnum.

Fleiri hafa dregið í efa að Tshisekedi hafi fengið flest atkvæði í kosningunum 30. desember, þar á meðal kaþólska kirkjan í Austur-Kongó. Fjörutíu þúsund eftirlitsmenn á vegum hennar fylgdust með kosningunum. Samkvæmt útgönguspá þeirra sigraði Martin Fayulu.

Forseti Suður-Afríku og Samtök ríkja í sunnanverðri Afríku sendu í dag Felix Tshisekedi hamingjuóskir með sigurinn. Samtökin, sem í eru sextán ríki, hvetja til þess að sjálfstæði landsins sé virt og að valdaskiptin fari friðsamlega fram. Joseph Kabila forseti lætur að líkindum af embætti á þriðjudag eftir átján ár á valdastóli.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi