Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Efast um að tillögur nái fram að ganga

26.01.2013 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, efast um að tillögur innanríkisráðuneytisins um að takmarka rétt erlendra ríkisborgara til að eiga fasteignir á Íslandi, fái stuðning í ríkisstjórn og á Alþingi.

Innanríkisráðuneytið hefur samið drög að frumvarpi, að tilhlutan Ögmundar Jónassonar ráðherra, sem kveða á um að einungis íslenskir ríkisborgarar og þeir sem séu með lögheimili á Íslandi megi eiga fasteignir hér á landi. Ennfremur sé erlendum ríkisborgurum með lögheimili hér óheimilt að eiga eignir þar sem vatns- eða veiðiréttindi fylgja.

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segist ekki geta séð að við vandamál sé að etja. „Vandinn hefur þvert á móti verið sá að það hefur skort erlenda fjárfestingu og við höfum viljað auka hana en þetta frumvarp gengur í þveröfuga átt,“ segir Dagur.

Hann telur að það gæti haft neikvæð áhrif ef ákvæðin næðu fram að ganga. „Ég tel að við eigum ekki að gera neitt til þess að gera erfiðara að fjárfesta, hvorki í fasteignum né öðru, og efast raunar um að frumvarpið fái stuðning, hvorki í ríkisstjórn né á Alþingi í þessari mynd,“ bætir Dagur við. Hann segist ekki telja líklegt að hugmyndirnar nái fram að ganga, hann sjái ekki að þær samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar eða því sem skynsamlegt sé að gera við núverandi aðstæður.