Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ef það gerir okkur að Svarta Pétri“

24.11.2016 - 06:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmenn í flokkunum fimm, sem slitu stjórnarmyndunarviðræðunum í gær, hafa ólíkar skoðanir á því hvað fór úrskeiðis. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segir að flokkkurinn hafi lagt sín spil á borðið þegar kallað var eftir hreinskilni. „Ef það gerir okkur að svartapétri að þessu sinni þá verður svo að vera.“ Óvíst er hvað formaður VG gerir í dag, hún sagðist ætla að sofa á þessari niðurstöðu í nótt.

Formenn flokkanna fimm hittust á úrslitafundi síðdegis í gær og eftir þann fund, sem stóð fremur stutt,  var ljóst að viðræðurnar hefðu siglt í strand. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði við fjölmiðla að ekki hefðu allir flokkar verið með sannfæringu fyrir stjórnarmynduninni. 

Mynd: RÚV / RÚV

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segir á Facebook-síðu sinni að það hefði staðið í flokknum að sú verulega aukning ríkisfjármála, sem hafi verið uppi á borðinu vegna ýmissa brýnna verkefni, yrði fjármögnuð með stórfelldum skattahækkunum. „Þessar efasemdir lögðum við á borðið þegar kallað var eftir hreinskilni. Ef það gerir okkur að Svarta Pétri að þessu sinni, þá verður svo að vera.“

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir á sama vettvangi að það sé ansi mikið verið að berjast um hver eigi að vera Svarti Péturinn í þessu síðasta spili. Hún segir að hugmyndin hafi verið góð en kveðst sjálf, um tíma, ekki hafa verið alveg viss hvort vinstri vængurinn vildi þetta. Hún segist hafa viljað styðja trausta konu til góðra verka. „Það er vont að það tókst ekki. Svo má fólk bara kenna þeim um sem það vill. Það má hinsvegar gera ráð fyrir því að margir leikir hafi verið spilaðir á sama tíma.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að það hafi komið henni verulega á óvart að svona snögglega hafi slitnað upp úr þessum viðræðum. „Því miður tókst ekki að ná fram nákvæmlega hvað það var sem Viðreisn treysti sér ekki til að málamiðla um, vegna þess að það komu ekki fram neinar tillögur frá þeim til hinna fjögurra flokkanna.“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, tjáir sig ekki með beinum hætti af hverju upp úr viðræðunum slitnaði. Oddný bendir þó vinum sínum á Facebook á af hverju hún telji að andstaða hafi verið við breytingar á skattkerfinu til að fjármagna betri velferðarþjónustu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sneiðir að Viðreisn í færslu á Facebook-síðu sinni og spyr hverjum hafi eiginlega dottið í hug að kalla Viðreisn miðjuflokk. „Var það kannski sami maður og hvíslaði því að Benna J. að þeir þyrftu ekki að gera neinar málamiðlanir í stjórnarmyndun fimm flokka? Svo koma allir aðilar að fjöllum varðandi stöðu ríkissjóðs. Úpps!“

Þótt ekki sé vitað hvað Katrín Jakobsdóttir gerir í dag þá hefur hún upplýst Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um stöðu mála. Þegar upp úr viðræðum Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks slitnaði fór Bjarni Benediktsson á fund Guðna. Eftir það fékk Katrín stjórnarmyndunarumboðið.

Eiríkur Bergmann, prófessor. í stjórnmálafræði, benti á það í sjónvarpsfréttum í gær að forsetinn hefði hingað til veitt flokkunum stjórnarmyndunarumboð eftir stærð þeirra. „„Ég myndi nú halda að brúnin fari að þyngjast á hinum bjartleita forseta annars og að til kasta hans komi. Ég er auðvitað ekkert að spá því að hann sé farinn að teikna upp utanþingsstjórn eða hvort hann sjái fyrir sér að þessi starfsstjórnin haldi áfram,“ sagði Eiríkur. Hann sagði að farið væri að glitta í stjórnarkreppu.

Mynd: RUV / RUV

Eva Heiða Önnudóttir, stjórnamálafræðingur, sagði í Speglinum í gærkvöld að hún myndi helst giska á að einhverjum hafi ekki hugnast að starfa með Pírötum eða treyst þeim til að framfylgja stjórnmálum. „Þetta er meðal annars vegna þess að þeir hafa látið að því liggja að ýmis stjórnarmál yrðu borin undir félagsmenn og ef sú yrði raunin þýðir það að grasrót ríkisstjórnarflokks með 14,5% fylgi getur hindrað framgang ákveðinna mála.“

Mynd: Rúv / rúv
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV