Eðlilegt skref að bjóða sig fram til Alþingis

08.10.2019 - 08:22
Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, sem hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir að ef hann nær kjöri sé það eðlilegt næsta skref, að bjóða sig fram til Alþingis. Guðmundur Ingi greindi frá því í gær að hann hygðist bjóða sig fram til embættis varaformanns á landsfundi VG sem verður haldinn síðar í þessum mánuði. Núverandi vara­formaður VG, Edw­ard H. Huij­bens, ætlar ekki að gefa kost á sér áfram.

„Ég skal viðurkenna að þetta er kannski ekki auðveldasta ákvörðun sem ég hef tekið, svona í lífinu,“ sagði Guðmundur Ingi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „En mér finnst skipta máli að í pólitík sé fólk sem er með umhverfis- og náttúruvernd að leiðarljósi. Og ég vil sjá fleira þannig fólk almennt í stjórnmálum, og líka í forystu flokkanna. Mér finnst það skipta mjög miklu máli. Þessi málaflokkur er að fá meira og meira rými, ekki bara í umræðunni. Og ég þykist hafa vitað að hann sé búinn að vera mjög mikilvægur lengi, eins og margir aðrir. Og þetta eru bara mín baráttumál sem ég vil taka sem lengst.“

Guðmundur Ingi var skipaður í embætti umhverfisráðherra utanþings, en segir líklegt að hann muni bjóða sig fram til Alþingis, nái hann kjöri sem varaformaður.

„Ég ætla allavega að byrja á þessu. Við skulum sjá hvernig þetta gengur. En síðan er það kannski eðlilegt næsta skref að gera slíkt. En ég hef svo sem ekki tekið ákvörðun um hvar ég myndi vilja bjóða mig fram eða neitt slíkt, en ég held að það sé eðlilegt næsta skref ef þetta gengur vel.“

Heyra má viðtalið við Guðmund Inga í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi