Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Eðlilegt að við stöndum með NATO“

16.04.2018 - 09:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland samþykkti yfirlýsingu NATO þar sem lýst var fullum stuðningi bandalagsins við hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands í Sýrlandi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður utanríkismálanefndar segir að eðlilegt sé að Ísland standi með NATO.

„Við vorum ekki að taka neina ákvörðun í NATO um meiriháttar mál af því NATO kemur með ályktun eftir á. Þjóðirnar, eins og við, vorum ekki upplýst um árásina fyrir fram enda ekki á vegum NATO. Utanríkisráðherra upplýsti okkur og gerði grein fyrir máli sínu gríðarlega vel í gær og kom með allar upplýsingar sem beðið var um þannig fundurinn í gær var gríðarlega góður,“ sagði Áslaug Arna í Morgunútvarpinu á rás2. 

Áslaug segir að hvorki Ísland eða NATO sem bandalag hafi staðið á bak við árásirnar. Árásin hafi verið afmörkuð frá þremur löndum; Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands.
„Við teljum skiljanlegt að það hafi verið farið í þessar afmörkuðu loftárásir á þeim stöðum sem geyma efnavopn. Enda efnavopn með öllu bönnuð og sérstaklega ómannúðleg og þeir sem telja ekki hafa átt að fara í þessar árásir, það væri áhugavert að heyra hvernig þeir vilji hegna fyrir það að notuð séu efnavopn gegn öllum þeim bönnum og fordæmingu á notkun þeirra. Með þessu eru þessi lönd að senda ákveðin skilaboð um að notkun hafi einhverjar afleiðingar í för með sér. Mér þykir mjög eðlilegt að við stöndum með NATO,“ segir Áslaug Arna.

Afstaða annarra landa samræmist afstöðu Íslands til árásanna. „Afstaða okkar er skiljanleg og viðbúin. Þetta er í anda vinaríkja okkar. Við sjáum í heimspressunni hvernig Noregur lýsir yfir skilningi á þessum aðgerðum. Þetta er alveg skýrt og það var alveg skýrt áréttað í NATO mikilvægi þess að pólitísk lausn myndi nást svo hægt sé að binda enda á stríðið.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV