Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ebólufaraldur í Kongó að baki

epa05959537 (FILE) - A Liberian health worker in a burial squad drags an Ebola victim's body for cremation from the ELWA treatment center in Monrovia, Liberia, 13 October 2014 (reissued 12 May 2017). According to media reports, the World Health
 Mynd: EPA
Ebólu-faraldur sem orðið hefur minnst 33 að bana í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó á síðustu tíu vikum virðist nú vera afstaðinn, eða í það minnsta mjög í rénun. Heilbrigðisráðuneytið í landinu sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að 42 dagar séu nú liðnir frá því að smit greindist síðast. Því megi nú segja að tekist hafi að stöðva útbreiðslu þessarar skæðu pestar.

Heilbrigðisyfirvöld í Kongó, í samvinnu við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, hafa unnið markvisst að því að kveða faraldurinn niður allt frá því að fyrsta tilfellið var staðfest hinn 8. maí síðastliðinn. Staðfest tilfelli eru 54, en 21 lifði sýkinguna af. Sérfræðingar í faraldsfræðum hafa lýst ánægju með árangurinn af aðgerðum heimamanna og Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar til að hefta útbreiðslu faraldursins.

Gripið var til þess ráðs að nota nýtt bóluefni gegn ebólu, sem enn er á tilraunastigi. Ríflega 3.300 manneskjur voru bólusettar. Hin bólusettu tilheyrðu flest áhættuhópi, sem samanstendur af fólki sem ýmist var vitað eða talið líklegt að hefði komist í tæri við smitaða einstaklinga, beint eða óbeint. Er talið að þetta hafi ráðið miklu um það, hve fljótt og vel gekk að koma böndum á faraldurinn.

Um hríð voru uppi miklar áhyggjur af því, að þetta yrði óvenju skæður faraldur, þar sem þrjú smit greindust í milljónaborginni Mbandaka, en mun erfiðara er að hemja útbreiðslu smitsjúkdóma í þéttbýli en dreifbýli. Að auki er Mbandaka hafnarborg á bökkum Kongófljóts, og því var óttast að faraldurinn gæti teygt sig til höfuðborgarinnar Kinshasa og jafnvel yfir til Miðafríkulýðveldisins. Svo fór þó ekki. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV