Dýrt skólakerfi en slakur árangur

23.08.2012 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Árangur grunnskólanna er ekki í samræmi við það mikla fé sem í þá er lagt, að mati Samtaka atvinnulífsins. Kennarar segjast hafa sífellt minni tíma til að kenna börnum vegna umönnunarþáttarins í starfinu.

Íslenskar menntastofnanir eru þær elleftu dýrustu í heimi, samkvæmt OECD, ef horft er á heildarkostnað og honum deilt niður á nemendur. Sá nemendahópur sem mestum kostnaði er varið í eru fyrstu til sjöundu bekkir grunnskóla. En margir hafa gagnrýnt skólana og þykir peningarnir sem settir eru í þá ekki nýtast sem skyldi.

Halldór Árnason, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir að það sé niðurstaða alþjóðastofnana eins og OECD að þrátt fyrir þetta háa framlag, sem sé líkast til eitt það hæsta í Evrópu miðað við landsframleiðslu, sé ekki nægur árangur að skila sér í menntun.

45% þeirra sem hefja nám í framhaldsskóla ljúka náminu á fjórum árum. Halldór segir brottfall úr framhaldsskólum of hátt og þegar litið sé á vinnumarkaðinn þá sé um þriðjungur vinnumarkaðar sem hafi einungis grunnskólapróf.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir að auðvitað hljóti námsleiði, hvort sem sé í grunn- eða framhaldsskóla, auðvitað að vera hluti af skýringunni.

Samtök atvinnulífsins vilja bregðast við brottfallinu með því að stytta  grunn- og framhaldsskólann um tvö ár og byrja strax í grunnskóla að bjóða upp á starfsnám í iðngreinum. Þá finnst samtökunum vísinda- og tæknimenntun ekki nóg og starfsumhverfið er gagnrýnt. Halldór segir það allt of staðnað í dag, það sé lítill sveigjanleiki.

Ólafur segir að það sé alveg rétt að meðalaldur kennara sé hár en það sé ekkert samhengi milli þess og að fólk geti ekki tileinkað sér tækni.

Í aðalnámskrá fyrir grunnskólana er 49 sinnum talað um einstaklinginn og segir að koma eigi til móts við námsþarfir ólíkra einstaklinga. En lítið hefur farið fyrir framkvæmd á einstaklingsmiðuðu námi. Kennarar segja ástæðuna þá að tími þeirra fari í svo margt annað en kennslu.

Ólafur segir að það séu fundir með sérfræðingum innan og utan skólans og það séu ýmis vandamál eins og gengur sem koma upp í skólanum sem þurfi að fylgja eftir og það sem sé kannski meiri umönnunarþáttur, þessi þáttur sé alltaf að verða stærri og fyrirferðameiri í skólastarfinu.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi