Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dyrnar að Bessastöðum standa galopnar

28.07.2015 - 17:58
Sex af hverjum tíu Íslendingum hafa ekki myndað sér skoðun á því hvern þeir vilji sjá sem næsta forseta Íslands samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. 11 prósent vilja Ólaf Ragnar Grímsson, núverandi forseta en 21 prósent Jón Gnarr. Hann lýsti því yfir fyrir allnokkru að hann ætlaði ekki í framboð.

Gallup spurði í rúmlega 1400 manns í netkönnun 19. júní til 1. júlí: Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta forseta Íslands? 55,5 prósent svöruðu. Forsetakjör á að vera eftir tæpt ár en kjörtímabil forseta hefst eftir rétt rúmt ár; 1. ágúst. 

Af þeim sem tóku afstöðu vill 21 prósent Jón Gnarr, ritstjóra 365 og fyrrverandi borgarstjóra sem næsta forseta Íslands, 17 prósent Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna, 11 prósent Ólaf Ragnar Grímsson og  8 prósent Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kastljóss og fyrrverandi forsetaframbjóðanda.

6 prósent nefndu Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, 3 prósent Davíð Oddsson ritstjóra Morgunblaðsins, 2 prósent Þórarinn Eldjárn rithöfund og 2 prósent Kristínu Ingólfsdóttur fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.

28 prósent þeirra sem tóku afstöðu nefndu önnur nöfn og 3 prósent svöruðu einhverja konu. 

Vinsælir en áhugalitlir

Af þeim fimm sem njóta mest fylgis hafa fjórir nánast gefið það frá sér að bjóða sig fram. Jón Gnarr, sem er áfram mjög vinsæll, lýsti því yfir í mars á þessu ári að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram. Hann tók fyrr í þessum mánuði við ritstjórastarfi hjá 365.

Ólafur Ragnar verður búinn að sitja á forsetastóli í 20 ár þegar gengið verður til kosninga á næsta ári. Hann sagði í viðtali á Hringbrautinni í dag að hann hygðist tilkynna hvort hann byði sig fram eða ekki í nýársávarpi sínu. Hann sagði menn hafa komið að máli við sig - sumir vildu hafa hann áfram, aðrir væru þeirrar skoðunar að þetta væri komið gott. 

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur ítrekað verið nefnd í tengslum við forsetaframboð. Hún var til að mynda spurð út í slíkt framboð í viðtali við DV. Hún kvaðst eiga erfitt með sjá sig fyrir sér á Bessastöðum. „En auðvitað verð ég upp með mér að einhverjum skuli detta þetta í hug. Þó mér finnist það eiginlega ótrúlegt að einhverjum skuli detta þetta í hug,“ sagði Katrín sem ítrekaði þessa skoðun í Sprengisandi á Bylgjunni í apríl - hún hefði ekki séð sig fyrir sér í þessu [embætti].

Þóra Arnórsdóttir, sem var í framboði fyrir fjórum árum, sagði í viðtali við tímaritið MAN að hún ætlaði ekki að fara aftur fram. Hugurinn stefndi í aðrar áttir. Þóra var í síðustu viku ráðin ritstjóri Kastljós

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, sagði eftir skoðanakönnun Fréttablaðsins undir lok síðasta árs, að hún hefði forsetaframboð ekki í huga. Hún hefði þó verið hvött til þess.

Minnihluti tók afstöðu

Minnihluti þeirra sem svaraði tók afstöðu eða 38 prósent. 62 prósent svarenda tók ekki afstöðu til spurningarinnar og hafa því ekki myndað sér skoðun á því hvern þeir vilja sjá sem næsta forseta.

Tvöfalt fleiri karlar en konur, sem tóku afstöðu sjá Jón Gnarr fyrir sér sem forseta eða 26 prósent á móti 13. Yngra fólk er mun hlynntara honum en eldra og þeir sem myndu kjósa Bjarta framtíð, Pírata eða flokka sem sitja ekki á þingi vilja frekar sjá Jón Gnarr sem forseta en kjósendur hinna flokkanna á þingi.

Konur eru hlynntari Katrínu Jakobsdóttur en karlar og kjósendur Samfylkingarinnar, VG og Pírata en annarra flokka. 40 prósent þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn vilja Ólaf Ragnar sem forseta.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV