Dýrmætt að geta glatt aðra um jólin

Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV/Landinn

Dýrmætt að geta glatt aðra um jólin

30.12.2019 - 07:30

Höfundar

„Einu sinni hittumst við alltaf og föndruðum fyrir jólin, núna gerum við þetta," segir Kristín S. Bjarnadóttir en á hverju hausti hittast hún og systur hennar ásamt börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum og útbúa gjafir fyrir góðgerðaverkefnið jól í skókassa. Landinn fékk að fylgjast með.

Verkefnið, sem er á vegum KFUM og KFUK hófst í Bosníustríðinu. Gjafmilt fólk út um allan heim býr til gjafir í skókassa sem fara til fátækra barna á sjúkrahúsum og barnaheimilum í Úkraínu. Í kassana eiga að fara leikföng, skóladót, hreinlætisvörur, fatnaður og sælgæti. Um 15 ár eru síðan Íslendingar fóru að taka þátt og í ár voru sendar út 4.656 gjafir. 

„Þetta er spurning um útsjónarsemi og að hafa verkefnið í huga yfir árið,“ segir Kristín þegar hún er spurð að því hvar þau fái allt dótið sem þau setja í pakkana. Þau eru nefnilega stórtækari en flestir. Í fyrra bjuggu þau til 80 gjafir og í ár urðu þær 100. „Það er bara frábært að skila einum kassa en þetta vatt bara svona skemmtilega upp á sig hjá okkur,“ segir Kristín og bætir því við að þetta sé orðin ómissandi jólahefð í stórfjölskyldunni. „Þetta gefur okkur heilmikið og svo er svo gott að láta gott af sér leiða.“