Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Dýraverndarlög hugsanlega brotin á kúabúi

09.12.2012 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Grunur leikur á að lög um dýravernd hafi verið brotin á kúabúi í Borgarbyggð, þar sem Matvælastofnun afturkallaði nýlega starfsleyfi.

Starfsleyfi annars bús í Reykhólasveit hefur einnig verið afturkallað, þar sem stjórnendur þar fóru ekki í úrbætur sem héraðsdýralæknir taldi nauðsynlegar. Aðbúnaður nautgripa þar er einnig til skoðunar.

Matvælastofnun afturkallaði nýlega starfsleyfi tveggja kúabúa á Vesturlandi, á Brúarreykjum í Borgarbyggð og á Ingunnarstöðum í Reykhólasveit. Þetta þýðir að bændurnir mega ekki afhenda mjólk eða sláturgripi frá búum sínum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var starfsleyfi Ingunnarstaða afturkallað þar sem stjórnendur þar samþykktu ekki að fara í nauðsynlegar úrbætur á aðstöðu sinni og eftir að saurgerlar fundust í vatnssýni frá búinu. Þar er verið að skoða aðbúnað nautgripanna, en á Brúnareykjum er hins vegar ástandið talsvert verra, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Myndir sem eftirlitsmenn hafa tekið þar, sýna afar slæman aðbúnað nautgripa í fjósinu. Viktor Stefán Pálsson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Matvælastofnunar, sagði í samtali við fréttastofu að stofnunin væri nú að skoða hvort lög um dýravernd hafi verið brotin á Brúnareykjum. Það mál er enn í rannsókn hjá stofnuninni, óháð því að starfsleyfi Brúnareykja hafi verið afturkallað. Viðurlög við brotum á lögum um dýravernd geta verið sektir eða fangelsi, séu brotin stórfelld eða ítrekuð.

Mjólkursamsalan hefur tekið við mjólk frá Ingunnarstöðum og Brúarreykjum undanfarna mánuði eða síðan Matvælastofnun hóf að gera athugasemdir og samkvæmt upplýsingum frá MS hefur mjólkin frá þessum búum staðist þær kröfur sem gerðar eru.