Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dýrasvif brugðust við sólmyrkvanum

01.04.2015 - 05:28
The total solar eclipse seen from Svalbard, Norway Friday March 20, 2015. An eclipse is darkening parts of Europe on Friday in a rare solar event that won't be repeated for more than a decade.  (AP Photo/Haakon Mosvold Larsen, NTB Scanpix)  NORWAY
 Mynd: AP - NTB Scanpix
Sólmyrkvinn sem sást víða á norðurhveli jarðar 20. mars síðastliðinn hafði áhrif á dýralíf sjávar. Þetta eru niðurstöður rannsóknar norskra nemenda í sjávarlíffræði við Norðurheimskautaháskólann í Noregi.

 

Rannsóknin var framkvæmd við strendur Svalbarða. Þar sást almyrkvi og því varð nær alveg dimmt þegar tunglið skyggði á sólina.

Svífur upp í myrkri
Nemendurnir vildu skoða viðbrögð dýrasvifs við myrkrinu. Svifið heldur sig neðansjávar á daginn til þess að forðast rándýr en svífur nær yfirborði sjávar á nóttunni þar sem meiri næringu er að fá. Markmið rannsóknarinnar var að athuga hvort dýrasvifið notar birtu til þess að greina hvenær óhætt er að nálgast yfirborðið eða hvort það hefur einhverskonar innra tímaskyn.

Rannsókninni ekki lokið
Nemendur notuðu bæði hljóðbylgjur og net til að rannsaka ferðir dýrasvifsins. Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir að fullu fyrr en í haust. Enn á eftir að greina hvaða tegundir dýrasvifs brugðust við myrkrinu og hvaða tegundir héldu kyrru fyrir í sjávardjúpinu.

Niðurstaðan mikilvæg til að spá fyrir um framtíðina
Jørgen Berge, prófessor við háskólann, sem leiddi rannsóknina segir að þó rannsókninni sé enn ekki lokið geti hann staðfest að sólmyrkvinn hafi haft áhrif á líf hafsins. Hann segir niðurstöður rannsóknarinnar geta hjálpað til við að spá hvernig sjávarlíf á Norðurskautinu gæti þróast þegar hafís bráðnar og birta sólarinnar nær til stærri hluta sjávar.