Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dýrar og óskýrar rannsóknir óboðlegar

19.10.2013 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Forseti Alþingis segir ekki boðlegt að Alþingi skipi rannsóknarnefndir sem kosti mikla fjármuni, um óskýr verkefni. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hyggst endurskoða lög um rannsóknarnefndir.

Skýrsla um Íbúðalánasjóð, sem kom út í sumar átti að kosta 70 milljónir en kostaði tvö 250 milljónir. Þá er skýrsla um sparisjóðina væntanleg. Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis segir að áður en gengið verði lengra í öðrum rannsóknum þurfi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að komast að niðurstöðu um það hvernig slíkum málum skuli háttað. Í sumum tilfellum geti reynst óþarft að skipa nefndir, frekar sé hægt að leita til Ríkisendurskoðunar eða umboðsmanns Alþingis.

Einar segir að komið hafi á daginn að kostnaður hafi orðið miklu meiri en áætlað var í upphafi. Jafnframt hafi umfang verka orðið miklu meira en lagt var upp með. „Það er alveg ljóst að við verðum að læra af þessari reynslu. Þetta getur ekki gengið svona áfram.“

Að hans mati er það augljóst mál að þrengja þurfi rannsóknarspurningar og búa til skýrari ramma um það hverju eigi að ná fram. „Við sjáum til dæmis með sparisjóðina og Íbúðalánasjóð að þau verkefni voru skilin eftir galopin að hálfu Alþingis. Það sjá allir að það getur ekki gengið.“

Alþingi hefur samþykkt rannsókn á einkavæðingu bankanna og í vikunni lögðu þrettán þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram þingályktunartillögu um rannsókn á vinnubrögðum íslenskra stjórnvalda vegna Icesave. Einar segir að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum í fjárlagafrumvarpi til frekari rannsókna. Það er eitthvað sem Alþingi verður að taka afstöðu til síðar.