Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dularfullar sprengingar urðu tilefni innrásar

21.04.2017 - 11:22
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Enn er ótal spurningum ósvarað um sprengjuárásirnar á fjögur fjölbýlishús í rússneskum borgum í september 1999, sem urðu nærri þrjú hundruð manns að bana. Árásirnar voru notaðar til að réttlæta síðari innrás rússneska hersins í Kákasuslýðveldið Téténíu

Í ljósi sögunnar fjallar áfram um sögu Téténíu í Kákasusfjöllum. Þetta er síðari þáttur af tveimur. Fyrri þáttinn, þar sem saga téténsku þjóðarinnar er rakin aftur í aldir, má finna hér

Eldfimt ástand eftir stríð

Tæplega tveggja ára stríði Rússa og Téténa eftir sjálfstæðisyfirlýsingu Téténíu lauk með friðarsamningi 1996. Eftir stríðið voru innviðir Téténíu í rúst og efnahagurinn mjög bágur. Valdamiklir stríðsherrar og herskáir íslamistar óðu enn uppi og gerðu téténskum stjórnvöldum, sem vildu fyrir alla muni halda friðinn, afar erfitt fyrir.

Í ágúst 1999 réðist alþjóðleg fylking íslamista undir stjórn Sádans Amir Khattabs og Téténans Shamils Basayev inn í grannlýðveldi Téténíu, Dagestan, með það að markmiði að „frelsa“ dagestanska múslima undan rússneskri stjórn — nokkuð sem fáir Dagestanar kærðu sig reyndar um. 

Mannskæðar sprengjur í fjölbýlishúsum

Rússneski herinn hrundi innrás íslamistanna á nokkrum vikum og þeir hörfuðu aftur til Téténíu. En um svipað leyti fóru dularfullir atburðir að gerast annarstaðar í Rússlandi.

Á tæpum tveimur vikum, frá 4. til 16. september, sprungu sprengjur í fjórum stórum fjölbýlishúsum í Moskvu og tveimur rússneskum borgum til viðbótar. Sprengjurnar voru öflugar og alls létu 293 manns.

Enginn lýsti ábyrgð á hryðjuverkunum á hendur sér en grunur rússneskra stjórnvalda féll fljótt á téténska öfgamenn. Forsætisráðherra Rússlands, Vladimír Pútín, sem þá var nýskipaður í forsætisráðherraembættið, hét því að hafa upp á hryðjuverkamönnunum og refsa þeim hvað sem það kostaði. 

A destroyed apartment building at the site of one of the Moscow bombings, September 9, 1999
 Mynd: Wikimedia Commons

Pútín varð vinsæll og valdamikill 

Rússneski herinn réðist svo inn í Téténíu þann 28. september 1999. Í aðdraganda innrásarinnar og á fyrstu dögum stríðsins stórjukust vinsældir nýja forsætisráðherrans, sem áður hafði verið óþekktur og óvinsæll.

Von bráðar var hann svo orðinn forseti og valdamesti maður Rússlands. 

Pútín hafði, áður en hann settist í forsætisráðherrastólinn, verið yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB. Svo vill til að FSB kom líka við sögu í sprengjuárásunum á fjölbýlishúsin. 

Sprengiefni eða sykur?

Þann 22. september sá árvökull íbúi í blokk í borginni Ryazan dularfulla menn bera þunga poka niður í kjallara blokkarinnar. Pokarnir reyndust innihalda sprengiefni af þeirri tegund sem notuð hafði verið í hinum hryðjuverkaárásunum, og í kjallaranum fannst einnig kveikibúnaður og tímastillir fyrir sprengju.

Eftir mikla leit um alla Ryazan-borg hafði lögregla upp á dularfullu mönnunum — sem framvísuðu þá skírteinum sem útsendarar FSB. Leyniþjónustan gaf svo þá skýringu að um æfingu hafi verið að ræða, til að kanna viðbrögð Ryazan-búa við hryðjuverkaárás. Sprengiefnið, sem rannsakað var af sprengjusérfræðingum lögreglunnar í Ryazan, hafi í raun verið sykur. 

Íslamskir öfgamenn úr Kákasusfjöllum voru á endanum dæmdir fyrir að hafa skipulagt hryðjuverkin en mörgum þykir málið enn grunsamlegt og um það eru ótal samsæriskenningar.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. 

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10.