Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dularfullar holur fundust á sjávarbotni

13.03.2018 - 09:45
Sjö dularfullar holur eða gígar hafa fundist á sjávarbotni út af Dalvík sem mögulega eru af mannavöldum. Ögmundur Erlendsson, jarðfræðingur segir að holurnar og fleiri fyrirbæri á hafsbotni séu óleystar gátur sem ÍSOR, Íslenskar orkurannsóknir, hefur kortlagt á hafsbotni við landið. 

Ögmundur og Árni Hjartarson jarðfræðingar kortlögðu fjölda fyrirbæra á hafsbotninum umhverfis landið og sögðu frá niðurstöðunum á ársfundi ÍSOR í dag.  Þeir studdust meðal annars við gögn frá Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni, gögn úr fjölmörgum alþjóðlegum leiðöngrum og dýptarmælingar frá fiskiskipum.  Ögmundur segir að t.d. hafi verið kortlagðar 6 til 7 holur fyrir utan Dalvík.

„Og við höfum ekki fundið neinar skýrar ástæður fyrir þeim. Hvort þær eru af náttúrulegum völdum eða mannavöldum. Við höllumst helst að því að það sé vegna djúpsprengja frá stríðsárunum.“

Einnig hafa fundist jakaför, sæfjöll og misgengi, neðansjávarskriður og gígar langt utan gosbelta.  Einnig skurðir eða sprungur norðaustur af landinu sem raða sér í  50-90 km langa línu 3-500 metra breiða og 50 metra djúpa og strýtulaga fyrirbæri í fjörðum víðsvegar við landið, „sem að hugsanlega gætu verið hverastrítur en þarf að athuga frekar í samstarfi við Landhelgisgæsluna og aðra aðila. Hugsanlega þarf að kafa niður og kanna en við teljum að mjög líklega erum við með hverastrítur á fleiri stöðum en bara í Eyjafirði.“

Í fyrsta sinn á síðustu árum hefur landgrunnið verið kortlagt í heild sinni. „En það á eftir að kortleggja mikið nákvæmara allt landgrunnið sem verður vonandi gert á næstu árum þannig að kortlagningin getur orðið mun ítarlegri í komandi framtíð.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV