Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Drulla og brattar brekkur úr sögunni

22.05.2019 - 19:41
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Aurbleyta og snarbrattar brekkur ættu að vera úr sögunni á Fróðárheiði þegar vegaframkvæmdum þar lýkur. Bæjarstjórinn í Snæfellsbæ segir að beðið hafi verið eftir þessum framkvæmdum í áratugi.

Fróðárheiði er fjallvegur á Snæfellsnesi sem tengir saman sunnanvert nesið og Ólafsvík, á því norðanverðu. Vegarkaflinn norðanmegin hefur lengi verið mjög lélegur, en fyrir skömmu var hafist handa við að færa veginn að hluta, og leggja á hann bundið slitlag.

Vegurinn um norðanverða heiðina verður eitt drullusvað í bleytu, auk þess sem brekkurnar eru mjög brattar. Þegar þessum framkvæmdum er lokið verða þessi vandamál hins vegar úr sögunni.

„Það er búið að bíða eftir þessu í áratugi og þetta er búið að taka mjög langan tíma,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ. „Þetta er eitt af því sem átti að gerast 1994 þegar sveitarfélagið var sameinað. En við erum búin að bíða alllengi og erum mjög ánægð með að þetta sé loksins að takast núna.“

Með bros á vör

Kristinn segir að drulla, hálka og brattar brekkurnar hafi valdið mörgum ökumönnum vandræðum, ekki hvað síst þeim erlendu. Framkvæmdin skipti heimamenn hins vegar líka miklu máli.

„Já mjög miklu vegna þess að þetta er auðvitað innanbæjarvegur fyrir okkur hérna í Snæfellsbæ og fólkið á sunnanverðu nesinu þarf að sækja mikið þjónustu yfir í þéttbýlið hérna að norðanverðu.“

Kaflinn sem unnið er að er um 5 kílómetra langur og áætlaður kostnaður er um 385 milljónir króna. Verkið er unnið í tveimur áföngum, nú í sumar og það næsta.

„Svo verður verkið klárað í ágúst 2020, þá verðum við með bros á vör, þegar verkinu er lokið,“ segir Kristinn.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV