Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Drepin fyrir að iðrast ekki synda sinna

Jose Gonzalez, left, follows his 5-year-old daughter, carried by a police officer, as they leave a hospital in Santiago, Panama, Thursday, Jan. 16, 2020. Gonzalez's wife and five of their children are among seven people killed in a religious ritual in the Ngabe Bugle indigenous community. According to local prosecutor Rafael Baloyes indigenous residents were rounded up by lay preachers and tortured, beaten, burned and hacked with machetes to make them "repent their sins." (AP Photo/Arnulfo Franco)
 Mynd: AP
Þunguð kona, fimm börn hennar og 17 ára stúlka voru myrt í undarlegri trúarathöfn í frumskógi Panama. Fjórtán til viðbótar var komið til bjargar, en þau höfðu verið bundin föst og lamin með lurkum og biblíum.

Fólkinu var haldið föngnu af litlum kristnum söfnuði sem kallar sig Nýtt ljós guðs. Þrír þorpsbúar úr samfélagi Ngabe Bugle þjóðflokksins í frumskógum Panama náðu að sleppa úr prísundinni og náðu að segja frá ódæðinu þegar þeir komust á sjúkrahús í nágrenninu.

Lögregla var við öllu búin, að sögn Guardian, en samt komu aðstæður henni á óvart. Söfnuðurinn hafði komið sér upp lítilli kirkju á búgarði þar sem athöfnin fór fram. Um tveimur kílómetrum frá kirkjunni fann lögreglan nýtekna gröf þar sem lík barnanna og þunguðu konunnar fundust. Yngsta barnið var ársgamalt.

Tíu úr kristna söfnuðinum voru handtekin. Að sögn þeirra sem komust undan ósköpunum reyndi söfnuðurinn að fá fólkið til að iðrast synda sinna. Til þess beittu þau barsmíðum og eldi, auk þess að sveifla að þeim sveðjum.

Saksóknarinn Rafael Baloyes segir að fjölskyldan hafi verið elt uppi og svo leidd til slátrunar. Hann segir að einn hinna handteknu sé afi barnanna sem voru drepin. Söfnuðurinn var stofnaður fyrir um þremur mánuðum, að sögn Baloyes. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV