Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Drengir köstuðu virkri sprengju á milli sín

28.08.2018 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Mikil mildi þykir að virk sprengjukúla hafi ekki sprungið í höndum drengja sem léku sér að því að kasta henni á milli sín í Seyðisfirði í vikunni. Eftir að þeir létu foreldra sína vita af þessum torkennilega hlut sem þeir höfðu fundið var sprengjusveit Landhelgisgæslunnar kölluð til, sprengjan gerð óvirk og henni eytt. Talið er að sprengjukúlan sé úr loftvarnabyssu breska olíuskipsins El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar.

Frá þessu segir í tilkynningu til fjölmiðla frá Landhelgisgæslunni. Þar kemur fram að fjórir 11 til 12 ára drengir hafi verið að leik í Seyðisfirði og þá fundið sprengjuna. Í tilkynningunni segir að ekki þurfi að fjölyrða um það hversu hættulegar slíkar sprengjur geti verið – hlutir úr seinni heimsstyrjöldinni finnist enn víðs vegar um landið.

„Landhelgisgæslan vill því brýna fyrir fólki að láta lögreglu eða Landhelgisgæsluna vita tafarlaust ef það finnur torkennilega hluti og snerta þá ekki. Ef vafi leikur á um hvort um sprengju sé að ræða er mikilvægt að sprengjusérfræðingar skeri úr um slíkt,“ segir í tilkynningu Gæslunnar.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV