Ingileif er Mánudagsgestur vikunnar og ræddi meðal annars söngdrauminn, hinseginleikann og kosti og galla þess að hafa mikið að gera.
Þegar Ingileif var lítil langaði hana að verða söng-og leikkona eins og Selma Björnsdóttir og segist hún muna sterklega eftir því þegar hún fór og sá Grease þar sem Selma lék Sandy. „Ég sat stjörf, titrandi og ísköld og var þarna bara að upplifa stærsta móment lífs míns fimm ára,“ rifjar hún upp. Söng- og leikkonudraumurinn var hins vegar eitthvað sem hún þorði varla að segja neinum frá og hélt frekar fyrir sjálfa sig, þar til fyrir stuttu.
Fann aldrei sömu tilfinningar og vinkonurnar
Ingileif er fædd í Reykjavík, bjó stærstan hluta barnæskunnar í Seljahvefi í Breiðholti og gekk í Ölduselsskóla. Hún segist alltaf hafa verið góður námsmaður og haft mikinn metnað til að ganga vel. Í skólanum voru ekki sérstaklega margir nemendur og Ingileif segir að ákveðinn eineltiskúltúr hafi viðgengist þar. Þegar hún byrjaði svo í Versló varð hún mjög upptekin af því að passa í ákveðið box.
„Mig langaði bara að fitta í hópinn og vera ekki öðruvísi en hinir. Ég keypti mér föt sem voru kúl, sagði hluti sem voru kúl og missti sjónar á því hver ég var.“
Hluti af þessum menntaskólakúltúr var svo auðvitað að fara í sleik við einhverja gaura á einhverju balli og byrja að deita. „Allir í kringum mig voru að deita einhvern og ég varð bara að gera það líka. En ég varð aldrei almennilega skotin og fann aldrei þessar tilfinningar sem vinkonur mínar voru að tala um.“
Ingileif segist hafa verið með ákveðna fordóma gagnvart sjálfri sér á þessum tímapunkti og í mikilli afneitun gagnvart hlutum sem hún hefði kannski átt að átta sig á fyrr. Hún segist í undirmeðvitundinni hafa verið farin að fá einhverjar vísbendingar en fannst þetta allt hálf neyðarlegt og þorði ekki að minnast á það við neinn.
Þegar hún útskrifaðist svo úr menntaskóla fann hún strax fyrir ákveðnu frelsi vegna þess að vera ekki inni í einhverjum kassa. Sama sumar kynntist hún Maríu, sem er í dag konan hennar. „Þegar ég hitti Maríu þá kom svona aha-móment, það kviknaði á ljósaperu á hausnum á mér og allt meikaði sens.“