Draumur sem hún bar lengi ein með sjálfri sér

Mynd: Ingileif Friðriksdóttir / YouTube

Draumur sem hún bar lengi ein með sjálfri sér

09.10.2018 - 14:37
Ingileif Friðriksdóttir gaf á dögunum út sitt annað lag, Gerir eitthvað. Drauminn um að verða söngkona hún bar hún lengi vel ein með sjálfri sér en fyrr á þessu ári ákvað hún að láta hann rætast.

Ingileif er Mánudagsgestur vikunnar og ræddi meðal annars söngdrauminn, hinseginleikann og kosti og galla þess að hafa mikið að gera.

Þegar Ingileif var lítil langaði hana að verða söng-og leikkona eins og Selma Björnsdóttir og segist hún muna sterklega eftir því þegar hún fór og sá Grease þar sem Selma lék Sandy. „Ég sat stjörf, titrandi og ísköld og var þarna bara að upplifa stærsta móment lífs míns fimm ára,“ rifjar hún upp. Söng- og leikkonudraumurinn var hins vegar eitthvað sem hún þorði varla að segja neinum frá og hélt frekar fyrir sjálfa sig, þar til fyrir stuttu.

Fann aldrei sömu tilfinningar og vinkonurnar

Ingileif er fædd í Reykjavík, bjó stærstan hluta barnæskunnar í Seljahvefi í Breiðholti og gekk í Ölduselsskóla. Hún segist alltaf hafa verið góður námsmaður og haft mikinn metnað til að ganga vel. Í skólanum voru ekki sérstaklega margir nemendur og Ingileif segir að ákveðinn eineltiskúltúr hafi viðgengist þar. Þegar hún byrjaði svo í Versló varð hún mjög upptekin af því að passa í ákveðið box.

„Mig langaði bara að fitta í hópinn og vera ekki öðruvísi en hinir. Ég keypti mér föt sem voru kúl, sagði hluti sem voru kúl og missti sjónar á því hver ég var.“

Hluti af þessum menntaskólakúltúr var svo auðvitað að fara í sleik við einhverja gaura á einhverju balli og byrja að deita. „Allir í kringum mig voru að deita einhvern og ég varð bara að gera það líka. En ég varð aldrei almennilega skotin og fann aldrei þessar tilfinningar sem vinkonur mínar voru að tala um.“

Ingileif segist hafa verið með ákveðna fordóma gagnvart sjálfri sér á þessum tímapunkti og í mikilli afneitun gagnvart hlutum sem hún hefði kannski átt að átta sig á fyrr. Hún segist í undirmeðvitundinni hafa verið farin að fá einhverjar vísbendingar en fannst þetta allt hálf neyðarlegt og þorði ekki að minnast á það við neinn. 

Þegar hún útskrifaðist svo úr menntaskóla fann hún strax fyrir ákveðnu frelsi vegna þess að vera ekki inni í einhverjum kassa. Sama sumar kynntist hún Maríu, sem er í dag konan hennar. „Þegar ég hitti Maríu þá kom svona aha-móment, það kviknaði á ljósaperu á hausnum á mér og allt meikaði sens.“

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Nokkrar góðar frá besta degi lífs okkar @styrmir_heiddis #hressbíur

A post shared by Ingileif Friðriksdóttir (@ingileiff) on

Fyrirmyndir nauðsynlegar

Ingileif kom út úr skápnum tvítug og segir að það hafi í raun ekki komið neinum á óvart. Þegar hún og María, sem kom líka frekar seint út úr skápnum, hugsa til baka til þess hvað það var sem hindraði þær í að koma fyrr út og horfast í augu við sjálfar sig hafa þær komist að þeirri niðurstöðu að fyrirmyndir skipta ótrúlegu máli. Séu engar fyrirmyndir til staðar sem maður getur samsamað sig með getur verið erfitt að sjá sig fyrir sér í ákveðnu hlutverki, hvort sem það er að vera lesbía eða vélaverkfræðingur.

„Það eru svo sterkar staðalímyndir bæði fyrir homma og lesbíur, það er bara ákveðin týpa sem að þú þarft að vera. Þegar ég fattaði að ég þyrfti ekki að vera einhver ákveðin týpa þá frelsaðist ég bara svolítið.“

Þessar pælingar urðu svo til þess að Ingileif og María stofnuðu snapchatrásina Hinseginleikinn þar sem að hinsegin fólk sýndi frá sínu daglega lífi. Það þróaðist svo seinna meir út í vefþáttaseríuna Hinseginleikann sem að Ingileif gerði hér á RÚVnúll.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV núll  - RÚV núll

Þarf að læra að lifa rólyndislífi

Frá því seint á síðasta ári hefur Ingileif haft nóg fyrir stafni. Hún stýrði kosningþættinum Hvað í fjandanum á ég að kjósa? og í kjölfarið fór hún í framleiðslu á Hinseginleikanum, gaf út fyrsta lagið sitt og kláraði BA-ritgerð í lögfræði ásamt því að undirbúa brúðkaup en hún og María giftu sig á Flateyri í sumar og héldu fjögurra daga partí fyrir vini og vandamenn.

Álagið fór að segja til sín í febrúar en þá fékk Ingileif í fyrsta sinn flogakast. Ekkert kom í ljós eftir ýmis konar heilarannsóknir og læknarnir sögðu að flogið væri einfaldlega álagstengt og mögulega bara einsdæmi. Það var svo í brúðkaupsferðinni í sumar þar sem hún og María voru staddar í rútu í miðjum frumskógi í Mexíkó að hún fékk annað kast og var í kjölfarið greind flogaveik.

„Þetta er ágætis áminning um að draga mig aðeins niður á jörðina, ég er góð í því að keyra mig áfram og finn ekki fyrir álaginu en svo kemur það í bakið á mér. Maður verður að passa sig að það sem maður er að gera bitni ekki á heilsunni.“

Ingileif mun eins og áður sagði spila off-venue á Iceland Airwaves og segir að eins og staðan er núna sé það aðallega tónlist og dagskrárgerð sem heilli hana. 

„Það eru margir sem eru með einhvern draum sem að þeir þora ekki að framfylgja. Ég er eiginlega bara komin með nýtt mottó í lífinu, ef mig langar að gera eitthvað þá bara ætla ég að gera það og ætla ekki að láta neinn stoppa mig í því.“

Hún er þó ekki með neitt eitt ákveðið fyrir framtíðina, nema kannski það að koma sér vel fyrir með fjölskyldunni í nýrri íbúð sem hún og María voru að festa kaup á. „Mig langar bara að líða vel vel og lifa mínu besta lífi, það er kannski lokatakmarkið, vera hamingjusöm og líða vel.“

Hlustaðu á viðtalið við Ingileif í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.