Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Draugaskip rekur í átt að Sandvík

01.04.2013 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Varðskipið Þór siglir nú til móts við rússneska draugaskipið svokallaða, Ljúbof Orlovu, sem rekið hefur stjórnlaust um Norður-Atlantshaf síðan það slitnaði aftan úr dráttarbáti í janúar. Koma á mönnum úr þyrlu gæslunnar um borð með dráttartaug svo hægt sé að forða skipinu frá strandi.

Óttast er að svartrottur, sem krökkt er af í skipinu, komist í land. 

Landhelgisgæslan fékk tilkynningu um skipið um níuleytið í morgun. Þá var það rétt suður af Surtsey. Síðan hefur það rekið vestur eftir og er nú mjög nærri landi. „Þyrlurnar hafa verið kallaðar út og þær eru að eru bara að gera sig klárar að fara í loftið. Stýrimenn síga niður úr þyrlunni og þegar varðskipið kemur á vettvang komum við taug úr varðskipinu yfir í Orlovu,“ segir Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Hún segir að skipið sé aðeins um hálfa sjómílu frá landi og því þurfi að hafa hraðar hendur. Hún segir að tilkynnt hafi verið að ekki væri olía í skipinu. „En aftur á móti er talið að svartrottur séu um borð og við erum í samstarfi við Umhverfisstofnun um hvernig taka skuli á því máli.“

Erpur Snær Hansen hjá Náttúrustofu Suðurlands hefur áhyggjur af því að rottur hafi náð að synda úr skipinu og ógni nú friðlandinu í Surtsey. „Hugmyndin er að fara á eftir þegar við höfum fengið leyfi frá Umhverfisstofnun til að setja gildrur þarna til að átta okkur á því hvort þær hafi numið land.“

Erpur segir einu leiðina að eitra fyrir rottunni. 

Athugasemd: Þessi frétt birtist 1. apríl og ber ekki að taka hana alvarlega.