Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Drangsnes: Hafa áhyggjur af slæmu símasambandi

07.01.2019 - 06:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Drangsnesi hefur áhyggjur af slæmu símasambandi í þorpinu. Björgunarsveitarfólk skili sér jafnvel ekki í útköll þar sem SMS-skilaboð komist ekki til skila.  Síminn segir til skoðunar að fjölga sendum fyrir þorpið.

Fólk skilar sér ekki í hús

Aðalfarsímasendir Drangsness á Ströndum er endurvarpssendir frá Ennishálsi. Ingólfur Árni Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Drangsnesi, segir að sambandið sé víða svo slæmt að þegar farið er inn í hús á Drangsnesi detti sambandið alveg út. „Þegar við erum að fá útkall þá skiptir máli að allir fái allavega að vita af því og geti komið í útkallið. Við höfum verið að lenda svolítið í því að það eru fáir að skila sér niður í hús,“ segir Ingólfur.

Fólk kallað út með SMS-um

Björgunarsveitarfólk er kallað út með SMS-um og Ingólfur segir að vissulega komi það fyrir að fólk skili sér ekki þrátt fyrir að fá SMS. Í bænum séu bæði vinnustaðir og heimahús þar sem símar eru alveg sambandslausir ef þeir liggja ekki beinlínis úti í gluggum. „En í svona litlu samfélagi þá vitum við hverjir eru heima og svona þannig að við höfum verið að hringja í heimasíma svo við séum ekki fáir í útköllum.“

Skoða að setja upp nýjan sendi

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum er til skoðunar að setja upp sendi í þorpinu sjálfu á árinu til að bæta sambandið. Þá sé vilji til að skoða mál björgunarsveitarinnar sérstaklega. Ingólfur segir að áhyggjur af símasambandi liggi hjá fleirum en honum, til að mynda slökkviliðsstjóra sveitarfélagsins. „Eins og í slökkviliðsstörfunum þá vitum við að þegar útkallið kemur verður hver einasta persóna að mæta sem getur vettling valdið,“ segir Ingólfur.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður