Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Draga í land með strangt fóstureyðingabann

03.08.2017 - 02:08
Mynd með færslu
 Mynd: Michelle Bachelet - Wikimedia Commons
Þingmenn í Síle ákváðu í dag að milda nokkuð strangt bann við fóstureyðingum þar í landi. Ef ný lög taka gildi verða fóstureyðingar löglegar í Síle ef móðurinni var nauðgað, ef lífi hennar er stefnt í hættu vegna þungunarinnar eða ef fóstrið sýnir einkenni alvarlegra fæðingargalla. 

Stranga löggjöf um fóstureyðingar í Síle má rekja til einræðisherratíðar Augusto Pinochets sem lauk fyrir nærri þremur áratugum. Breytt löggjöf um fóstureyðingar hefur verið forgangsmál hjá Michelle Bachelet sem er fyrsti kvenkyns forseti Síle og barnalæknir að mennt, segir í frétt AFP.

Minnihluti þingsins áfrýjaði niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar í dag til stjórnlagadómstóls og er beðið eftir úrskurði þaðan.

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV