Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Draga af þeim sem voru í fríi í verkföllum

08.04.2019 - 18:35
Innlent · Efling · kjarabarátta · kjaradeilur · Verkföll · VR
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Icelandair hótelin hafa dregið laun af félagsmönnum Eflingar og VR sem voru í vaktafríi þá daga sem verkföll stóðu yfir. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, veit ekki til að þess að slíkt hafi verið gert hjá öðrum fyrirtækjum.

„Við teljum að þetta sé bara svívirðilegt og hingað er að koma fólk unnvörpum og hefur verið svikið um laun, 12.000 til 25.000 krónur, og þetta er auðvitað bara ákaflega lítilmótlegt, verð ég að segja, af Icelandair hótels að leika þennan leik. Þetta er fólk á lægstu launum sem á erfitt með að ná endum saman,“ segir Viðar sem telur þetta kaldar kveðjur nú þegar búið er að undirrita kjarasamninga. Félagsmenn Eflingar á hótelum fóru í verkföll 8. og 22. mars. 

Þórey Magnea Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hotels, segir að það hafi verið búið að staðfesta að félagsmenn í verkfalli gætu sótt launagreiðslur fyrir sömu daga í verkfallssjóði félaganna. Dregið hafi verið af launum í samræmi við kjör hvers og eins. Þórey Magnea segir að fyrirtækið telji þennan frádrátt vera lögum samkvæmt. „Já, ellegar hefðum við aldrei farið í slíkar aðgerðir og líkt og áður greinir höfðu stéttarfélögin staðfest að félagsmenn þeirra gætu sótt launagreiðslur úr verkfallssjóði félaganna,“ segir í skriflegu svari hennar til fréttastofu.

Viðar er á öðru máli og segir að það hafi ekki verið hugmyndin að greiða fólki sem var í fríi þessa daga úr verkfallssjóði. Efling er nú með nokkrar launakröfur vegna málsins í vinnslu. Ef ekki verður brugðist við þeim ætlar stéttafélagið með málið fyrir dóm. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir