Dóttirin má ekki heita Hel

Mynd með færslu
 Mynd: Bosch

Dóttirin má ekki heita Hel

25.01.2017 - 18:31

Höfundar

Foreldrar stúlku mega ekki gefa henni nafnið Hel samkvæmt úrskurði mannanafnanefndar. Því veldur amaákvæði mannanafnalaga.

Þeir sem óskuðu eftir því að gefa dóttur sinni nafnið Hel eru í Ásatrúarfélaginu. Nafnið Hel brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og er í samræmi við ritreglur íslensks máls, segir í úrskurðinum.

Það er hins vegar fleira sem nöfn þurfa að uppfylla samkvæmt lögum um mannanöfn svo að hægt sé að skrá þau sem eiginnöfn á mannanafnaskrá. Nafn má nefnilega ekki vera nafnbera til ama. Það viðmið uppfyllir Hel ekki. 

Í úrskurðinum segir að Hel sé heiti á gyðju ríkis dauðra í norrænni goðafræði auk þess að vera heiti á dauðaríkinu. Hel merki dauða í sumum orðasamböndum samanber að svelta í hel og það sé blótsyrði í samsetta orðinu helvítis. 

Í skýringum við amaákvæðið þegar mannanafnafrumvarpið var lagt fram segir meðal annars að það séu mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn eins og Skessa, Þrjótur eða Hel.

Nefndin telur að skilyrði til þess að takmarka frelsi til nafngifta með tilliti til hagsmuna nafnbera séu uppfyllt hvað varðar Hel. Þá vísar mannanafnanefnd til fyrri úrskurðar síns þar sem amaákvæðinu var beitt en það var þegar nefndin hafnaði nafninu Satanía. 
Beiðninni um að færa nafnið á mannanafnaskrá var því hafnað og fær því litla stúlkan ekki að heita Hel. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Marlon og Hector inni – Thalía ekki

Innlent

Mega heita Neró, Snekkja og Manasína

Mannlíf

Fékk nafnið viðurkennt eftir 22 ár