
Dorian enn yfir Grand Bahama
Fellibylurinn hefur lítið sem ekkert færst úr stað síðan í gær, og liggur enn yfir eynni Grand Bahama. Dorian var í fyrradag skilgreindur fimmta og efsta stigs fellibylur, en telst nú þriðja stigs bylur.
Einungis er vitað um manntjón á Abaco-eyjum austur af Grand Bahama, en tjón er þar mikið og hefur bandaríska strandgæslan sent þangað skip og mannskap til að aðstoða sjúka og slasaða. Alvarlega slasaðir verða fluttir til eyjarinnar New Providence.
Víða á Abaco-eyjum og Grand Bahama eru stór svæði undir vatni, svo erfitt er að sinna hjálpar- og björgunarstarfi.
Búist er við að fellibylurinn verði yfir Bahama-eyjum í allt að sólarhring í viðbót, en haldi þá í vesturátt. Hann fari þá líklega upp að strönd Flórída, þar sem þegar er farið að hvessa, og þaðan fari hann með fram Georgíu og Suður-Karólínu.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í ríkjum við austurströnd Bandaríkjanna og víða hefur íbúum í strandhéruðum verið gert að forða sér í öruggt skjól