Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dönsku forsætisráðherraefnin tókust á

Lars Løkke Rasmussen og Mette Fredriksen. - Mynd: EPA-EFE / Ritzau Scanpix
Danir ganga til kosninga á miðvikudag og kannanir benda til þess að ríkisstjórnarskipti verði og Lars Løkke Rasmussen þurfi að láta af embætti forsætisráðherra.

Lars Løkke Rasmussen er formaður Venstre, sem þrátt fyrir nafnið er hægriflokkur. Hann hefur gegnt embætti síðustu fjögur ár og notið stuðnings Danska þjóðarflokksins, sem er einkum þekktur fyrir harða stefnu í málefnum innflytjenda. Stjórn hans var fyrst minnihlutastjórn Venstre, en haustið 2016 gengu Íhaldsflokkurinn og Liberal alliance, Frjálslynda bandalagið, til liðs við stjórnina. Kannanir nú benda hins vegar til þess að stjórnin falli. Lars Løkke er þó borubrattur.

Vandræði stjórnarinnar eru einkum vegna fylgistaps Danska þjóðarflokksins. Formaðurinn, Kristian Thulesen Dahl hefur raunar sagt að sögulegur sigur fyrir fjórum árum þegar flokkurinn fékk rúmlega tuttugu og eitt prósent, yrði tæplega endurtekinn. Kannanir nú benda til þess að flokkurinn tapi helmingi fylgisins. 

Ef svo fer fram sem horfir verður Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmanna, næsti forsætisráðherra. Hún vill sjálf að Jafnaðarmenn verði einir í stjórn og aðrir vinstriflokkar styðji stjórn hennar á þingi. 

Forsætisráðherraefnin, Lars Løkke Rasmussen og Mette Frederiksen, tókust á í sjónvarpskappræðum í gærkvöld. Brot úr kappræðunum og nánari umfjöllun um fyrirhugaðar þingkosningar í Danmörku má sjá í spilaranum hér að ofan.