Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Dómur kveðinn upp í landsdómi í dag

23.04.2012 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsdómur kveður í dag upp dóm í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Saksóknari krefst refsingar en Geir hefur lýst sig saklausan af öllum ákæruatriðum.

Aðalmeðferð lauk 16. mars og dóms hefur verið beðið síðan.

Geir er ákærður fyrir að hafa í aðdraganda bankahrunsins sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi.

Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari, sagði í lokaræðu sinni fráleitt að álykta að í ákærunni væri gengið út frá því að Geir hefði getað afstýrt bankahruninu. Á honum hefði hins vegar hvílt athafnaskylda.

Hún sagði að hættan sem um væri rætt hefði verið fyrirsjáanleg, fyrirfram sýnileg manni í sporum forsætisráðherra. Hann hefði haft vitund um hættuna, að mati sækjanda, en ekki brugðist við henni.

Andri Árnason, verjandi Geirs, sagði í sinni ræðu að undirbúningur málsins hefði brotið gegn sjónarmiðum um réttláta málsmeðferð.
Hann sagði einnig að atriðin sem Geir væri ákærður fyrir hefðu ekki fallið undir verksvið forsætisráðherra. Hann sagði svo að í ráðherraábyrgðarlögum væri ekki gert ráð fyrir því að forsætisráðherra bæri refsiábyrgð annarra ráðherra.

Andri sagði að eftirlitsaðilar og aðrir hefðu ítrekað sagt árið 2008 að bankarnir gætu vel mætt áföllum. Forsendur og heimildir ráðamanna til að grípa til aðgerða hefðu því verið takmarkaðar: „Og hefðu beinar aðgerðir, hverjar sem þær áttu nú að vera, á þessum tíma, allt eins getað komið af stað því hruni sem að verið var að reyna að forðast,“ sagði Andri í ræðunni.

Dómur verður kveðinn upp klukkan 14 og verður sent út beint frá því í útvarpi og sjónvarpi.