Dómsmálaráðherra vill heimila áfengisauglýsingar

27.02.2020 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Dómsmálaráðherra vill afnema bann við áfengisauglýsingum og segir það ekki virka. Þá mismuni það íslenskum framleiðendum. Frumvarp þess efnis er í vinnslu í ráðuneytinu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarpsdrög þar sem sala áfengis í vefverslunum hér á landi verður heimiluð. Í dag er leyfilegt að kaupa áfengi í gegnum erlendar vefverslanir og fá það sent heim að dyrum.

Dómsmálaráðherra segir að fullt tilefni sé til að endurskoða löggjöf um áfengisauglýsingar í framhaldinu, „af því að það er annað óréttlæti og ójafnræði sem íslenskir framleiðendur verða fyrir,“ segir hún.

„Það er auðvitað þannig í dag að áfengisauglýsingar eru alls staðar hvort sem það er þegar við horfum á erlenda íþróttaleiki í sjónvarpi, þegar við flettum erlendum tímaritum eða erum á öllum þessum samfélagsmiðlum í dag, þannig að bannið er ekki að virka,“ segir hún.

Þetta sjónarmið kemur einnig fram í skýrslu sem unnin var fyrir menntamálaráðherra um rekstrarumhverfi fjölmiðla þar sem lagt er til að afnema bann við áfengisauglýsinum. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að sömu rök gildi fyrir því að leyfa netsölu áfengis og áfengisauglýsingar og vill að bannið verði afnumið samhliða. Fyrirtæki hafi lýst því að þau séu tilbúin að fara að mjög ströngum siðareglum um auglýsingar.

Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum segir að réttur barna til að vera laus við áfengisáróður sé mikilvægari en viðskiptasjónarmið. Áfengisauglýsingum sé markvisst beint að börnum og ungmennum og þótt auglýsingar berist hingað eftir einhverjum leiðum þurfi ekki að slaka á lýðheilsu- og forvarnarviðmiðum.  

Áslaug Arna segir lýðheilsurökin ekki eiga við því bannið sé ekki að virka og því sé nær að setja um reglur um áfengisauglýsingar.

Spurð hvort hún sjái fyrir sér að af þessu verði á þessu ári svarar hún: „Ég veit það ekki en það er í vinnslu hér.“

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi