Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dómnum yfir Gýgjarhólsbónda áfrýjað

08.10.2018 - 16:15
Mynd með færslu
Valur Lýðsson ásamt verjanda sínum við aðalmeðferð málsins sem hófst í morgun. Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Suðurlands yfir Vali Lýðssyni til Landsréttar. Valur, sem er bóndi að bænum Gýgjarhóli II, var ákærður fyrir að hafa banað Ragnari bróður sínum og krafðist saksóknari sextán ára fangelsisdóms yfir honum. Héraðsdómur dæmdi hann hins vegar í sjö ára fangelsi og til að greiða börnum Ragnars þrjár milljónir hverju þeirra.

Áfrýjunarstefna var birt Vali Lýðssyni í dag.

Valur var ákærður fyrir að hafa banað Ragnari bróður sínum um páskana. Við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands sagðist Valur ekkert muna eftir atburðunum sökum ölvunar en neitaði að hafa banað bróður sínum af ásetningi. Verjandi Vals krafðist sýknu eða til vara að Valur yrði dæmdur fyrir líkamsárás. Það varð niðurstaða dómara að dæma Val fyrir líkamsárás sem leiddi bróður hans til dauða.