Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dómkvaddir matsmenn meta aðferðir „nuddarans“

29.03.2019 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd: Thomas Wanhoff - Wikimedia Commons
Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur hafa fallist á beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að dómkvaddir skulu tveir sjúkranuddarar í máli „nuddara“ sem talsvert hefur verið fjallað um fjölmiðlum. Matsmennirnir eiga meðal annars að meta hvort og þá að hvaða marki háttsemi hans samræmist viðurkenndum aðferðum í nuddfræðum.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að matsmennirnir eigi að taka afstöðu til átta atriða.  Þar segir enn fremur að lögreglan hafi nú til rannsóknar mál þar sem maðurinn er sakaður um kynferðisbrot sem eiga að hafa verið framin í skjóli starfs hans sem nuddari eða meðhöndlari á tíu ára tímabili, frá árinu 2007 til 2017.

Í greinargerðinni má sjá að teknar hafi verið skýrslur af nokkrum konum sem allar saka manninn um kynferðisbrot.  Hann er meðal annars sagður hafa nuddað kynfæri konu af miklu ákafa, farið inn í leggöng hennar og nuddað í kringum endaþarm. Loks hafi hann endað á því að nudda brjóst hennar. Konan leitaði til mannsins vegna verkja í efra baki, herðum og hálsi. 

Önnur kona sem leitaði til mannsins í tvígang vegna verkja í mjóbaki og rófubeini segir manninn hafa sett hendurnar inn í leggöngin á henni og þrýst. Hann hafi staðið fyrir aftan höfuð hennar með fingurna í leggöngunum og hún fundið fyrir hörðum kynfærum hans við andlit sitt. Þá hafi hún sagt stopp og farið.

Lögmaður nuddarans lagðist gegn matsbeiðninni og sagði verulega skorta á rökstuðning um hvaða atriði ætti að færa sönnur á með matinu. Matsbeiðnin byggi á ellefu málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglu og engin ákæra hafi verið gefin út á hendur skjólstæðingi hans.  Hann sé ekki lærður sjúkranuddari og hafi aldrei selt þjónustu sína sem slíka.  Þá liggi hvorki fyrir að sjúkranuddarar þekki umræddar aðferðir né beiti þeim. 

Héraðsdómur telur matspurningar lögreglu vera hnitmiðaðar og matið nauðsynlegt fyrir áframhaldandi rannsókn málsins. Lögreglan búi ekki yfir sérfræðingum sem geti svarað þeim spurningum sem komi fram í matsbeiðninni sem hlutleysis sé gætt.  Það sé í höndum lögreglu og rannsakanda að ákveða hvaða rannsóknaraðferðir séu notaðar við rannsókn opinberra mála.  Landsréttur staðfesti þann úrskurð á miðvikudag.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV