Dómarar í leyfi sækja um dómaraembætti

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og einn umsækjenda um embætti Landsréttardómara, hefur sent dómsmálaráðherra bréf þar sem hann lýsir yfir efasemdum um lögmæti þess að Landsréttardómarar, sem séu í leyfi, geti sótt um embættið. Verði umsóknirnar metnar gildar ætlar Ástráður að láta reyna á þá niðurstöðu, að því er segir í bréfinu.

Dómsmálaráðuneytið auglýsti eina stöðu Landsréttardómara lausa 3. janúar og rann umsóknarfresturinn út þann 20. Þrír sóttu um embættið, auk Ástráðs. Það eru Ásmundur Helgason, dómari við Landsrétt, Ragnheiður Bragadóttir, dómari við Landsrétt og Sandra Baldvinssóttir, héraðsdómari.

Ásmundur og Ragnheiður hafa verið í leyfi síðan í mars í fyrra, eða eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að skipun þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Andersen, á dómurum við Landsrétt væri ólögmæt. Forsaga málsins er sú að nefnd hafði komst að þeirri niðurstöðu að fimmtán umsækjendur væru hæfastir en ráðherrann skipti fjórum þeirra út fyrir aðra fjóra umsækjendur sem nefndin hafði metið minna hæfa.

Mynd með færslu
Ástráður Haraldsson, héraðsdómari. Mynd: RÚV

Ástráður var meðal þeirra umsækjenda sem ráðherra tók af listanum sem svo var kynntur forseta Alþingis. Málið leiddi til afsagnar ráðherrans.

Telur niðurstöðu ráðuneytis ranga

Í bréfinu sem Ástráður sendi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, núverandi dómsmálaráðherra, bendir hann á að ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu í maí 2019 að þó að umsækjandi væri skipaður Landsréttardómari stæði það ekki í vegi fyrir því að hann geti sótt um embættið. Þessa niðurstöðu telur Ástráður ranga. „Það er mín afstaða að ekki standist að Landsréttardómari sem skipaður er ótímabundið í embætti sitt geti án þess að segja fyrst af sér embættinu sótt um laust embætti Landsréttardómara. Ég tel raunar að þessi niðurstaða sé svo augljós af eðlisrökum að varla ætti að vefjast fyrir nokkrum manni. Enginn getur sótt um embætti sem þegar gegnir því sama embætti,“ segir í bréfinu. 

Segir vanda Landsréttar ekki leystan með „stólaballett“

Embættið er laust því einn Landsréttardómaranna var skipaður dómari við Hæstarétt. „Sá vandi sem ólögmæt embættisfærsla dómsmálaráðherra sumarið 2017 skóp dómskerfinu og þeim einstaklingum sem ekki hafa getað gegnt störfum Landsréttardómara síðan í mars 2019 verður ekki leystur með slíkum stólaballett eða hnísustökki,“ segir Ástráður í bréfinu til dómsmálaráðherra og bætir við að með slíkri skipun væri verið að gera tilraun til að löghelga eftir á skipun dómara sem þegar hefði verið metin ólögmæt. Í ljósi sögunnar yrði það, vægt til orða tekið, afar óheppilegt fyrir bæði dómskerfið og umsækjandann, ef það yrði niðurstaðan. Slíkt myndi auk þess vera til þess fallið að draga á langinn ríkjandi réttaróvissu um framtíðarskipan Landsréttar og telur Ástráður að rétturinn megi illa við frekari skakkaföllum, eins og það er orðað í bréfinu. 

Ef umsóknir Landsréttardómaranna tveggja verða metnar gildar kveðst Ástráður áskilja sér allan rétt til að láta á þá niðurstöðu reyna, segir í bréfinu.

 

Íslenska ríkið áfrýjaði dómnum til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu og hefst málflutningur þar 5. febrúar.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi