Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dómar í Khashoggi-máli fordæmdir

24.12.2019 - 08:33
Mynd með færslu
Jamal Khashoggi (t.v.) og Mohammed bin Salman krónprins. Mynd: RÚV
Dómar kveðnir upp í gær í tengslum við morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi hafa víða vakið hörð viðbrögð. Erindreki Sameinuðu þjóðanna segir að meintir gerendur hafi verið dæmdir, en þeir sleppi sem hafi skipulagt og staðið á bak við morðið.

Jamal Khashoggi var myrtur í skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi 2. október í fyrra. Strax kviknaði grunur um að útsendarar Mohammeds bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu, hefðu verið að verki, en Khashoggi hafði gagnrýnt stjórnvöld í Ríad í skrifum sínum fyrir bandaríska blaðið Washington Post.

Mikill þrýstingur var á stjórnvöld í Ríad að upplýsa málið og á endanum voru ellefu menn leiddir fyrir rétt. Í gær voru fimm þeirra dæmdir til dauða fyrir þátt sinn í morðinu á Khashoggi, þrír voru dæmdir í fangelsi fyrir að hylma yfir, en þrír voru sýknaðir.

Agnes Callamard, sérfræðingur í mannréttindamálum og erindreki Sameinuðu þjóðanna, sagði í skýrslu sem hún birti í sumar að fyrir lægju trúverðugar upplýsingar um að Mohammed bin Salman aðrir háttsettir embættismenn hefðu staðið á bak við morðið á Khashoggi, sem hún kallaði aftöku án dóms og laga. Aldrei hefði verið bent á þá við réttarhöldin.

Mannréttindasamtök á borð við Human Rights Watch og Amnesty International hafa fordæmt dómana og réttarhöldin yfir sakborningunum og sama gera samtökin Fréttamenn án landamæra, sem segja réttlætið vera fótum troðið i Sádi-Arabíu.

Stjórnvöld í Tyrklandi segja dómana hneyksli og að þeim sem staðið hafi á bak við morðið hafi verið tryggð friðhelgi.

 

Stjórnvöld í Washington hafa fagnað niðurstöðunni. Þetta væri mikilvægt skref að því að draga þá til ábyrgðar sem staðið hafi á bakvið morðið á Khashoggi.