Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dollari yrði frekar fyrir valinu en evra

22.07.2017 - 14:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ef menn ætluðu að taka upp annan gjaldmiðil en krónuna yrði dollari væntanlega fyrir valinu frekar en evra, segir utanríkisráðherra. Stjórnarstefnan sé þó sú að halda krónunni.

Grein Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra um gjaldmiðilsmál í vikunni, þar sem hann talaði fyrir því að skipta út krónunni, var til umræðu í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í dag. „Við getum sagt að þetta er ekki það sem maður á að venjast. Það verður bara hver og einn stjórnmálamaður, í þessu tilviki ráðherra, að hafa sinn stíl í því. Það eru engar algildar reglur hvað það varðar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Þó væri ljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar væri, að halda krónunni.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði skringilegt að fjármálaráðherra tjáði sig með þessum hætti eftir að ríkisstjórnin hafi væntanlega komið sér saman um að bíða niðurstöðu nefndar um endurskoðun peningastefnunnar. „Myntráð er mjög flókin leið og dýr leið, og kallar á stóran og mikinn gjaldeyrisvaraforða. Enda kemur fram í greininni að hann lítur á þetta sem áfanga á leið annað.“

„Ef við ætlum að taka upp annan gjaldmiðil sem er alveg sérstök umræða, og því geta fylgt kostir og gallar, þá held ég að flestir kæmust að þeirri niðurstöðu að við myndum taka upp amerískan dollar bara út af bæði stærð þess gjaldmiðils og sömuleiðis út af því að það er sá gjaldmiðill sem við erum í mestum viðskiptum við ef út í það er farið,“ sagði Guðlaugur Þór. Það væri þó önnur umræða.