Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dögun á lista þeirra sem fæstir hafa kosið

31.10.2017 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðeins fjórir framboðslistar hafa fengið færri atkvæði í lýðveldissögunni en Dögun fékk í kosningunum á laugardag. Flokkurinn fékk 101 atkvæði í Suðurkjördæmi, eina kjördæminu þar sem Dögun bauð fram. Atkvæðafjöldinn er aðeins þriðjungur þess fjölda undirskrifta sem þurfti til að Dögun gæti farið í framboð í Suðurkjördæmi.

Þau framboð sem hafa fengið færri atkvæði í lýðveldissögunni en Dögun eru Húmanistaflokkurinn sem fékk aðeins 33 atkvæði í kosningunum fyrir ári. Það er Íslandsmet, ef svo má segja, því ekkert framboð hefur fengið færri atkvæði. Verkamannaflokkurinn fékk 99 atkvæði í kosningunum árið 1991 og Sólskinsflokkurinn 92 atkvæði í haustkosningunum árið 1979.

Fyrsta framboðið til að fá innan við hundrað atkvæði í kosningum á lýðveldistímanum var listinn Frambjóðendur utan flokka í Vestur-Húnavatnssýslu. Sá listi bauð fram í fyrstu kosningum lýðveldistímans, árið 1946, og fékk 93 atkvæði. Þá voru kjördæmin mun fleiri og fámennari en varð með kjördæmabreytingum 1959 og 2003. Frambjóðandi listans Frambjóðenda utan flokka í Vestur-Húnavatnssýslu var Hannes Jónsson sem var þingmaður Framsóknarflokksins og síðar Bændaflokksins 1927 til 1937.

Tveir fengu innan við þúsund atkvæði

Dögun var ekki eini flokkurinn sem átti erfitt uppdráttar í kosningunum á laugardag. Alþýðufylkingin fékk 375 atkvæði. Báðir flokkar komust því á lista yfir þau framboð sem hafa fengið innan við þúsund atkvæði í kosningum til þings á lýðveldistímanum. Alþýðufylkingin er þar reyndar í þriðja skipti því í þau þrjú skipti sem flokkurinn hefur boðið fram hefur atkvæðafjöldinn aldrei náð fjögurra stafa tölu.

Alls hafa 38 framboð fengið innan við þúsund atkvæði á lýðveldistímanum, þar af átta í kosningunum fjórum sem haldnar hafa verið eftir hrun.

Auðveldara að fá meðmæli en atkvæði

Lögum samkvæmt þurfa flokkar að safna undirskriftum 30 meðmælenda fyrir hvert eitt þingsæti sem er í boði í kjördæmi til það þeir fái að bjóða fram. Þannig þurfti Dögun að safna minnst 300 atkvæðum til að fá að bjóða fram í Suðurkjördæmi. Uppskeran þýðir að í mesta lagi þriðjungur þeirra sem mælti með framboðinu kaus listann. Reyndar er það svo að oddviti listans kaus hann ekki. Pálmey Gísladóttir, sem leiddi listann, býr í Reykjavík og hafði því ekki kosningarétt í Suðurkjördæmi.

Alþýðufylkingin hlaut 375 atkvæði en þurfti að safna nær fjórfalt fleiri undirskriftum til að fá að fara í framboð í fjórum kjördæmum; Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV