Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Djúpivogur gæti sameinast í austur eða suður

20.04.2016 - 13:10
Djúpivogur
Telegraph mælir með heimsókn á Djúpavogshöfn. Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Oddviti Djúpavogshrepps segir að ekki sé útilokað að hreppurinn gæti sameinast í suður til Hafnar í Hornafirði og orðið hluti af stóru sveitarfélagi á Suðausturlandi. Sveitarfélagið eigi þó meira samstarf í austurátt og íbúar sæki helst þjónustu til Fljótdalshéraðs. Könnun hafi leitt í ljós að flestir á Djúpavogi vildu sameinast í austurátt frekar en suður til Hafnar.

Bæjarstjórinn á Hornafirði hefur viðrað þá hugmynd að Skaftárhreppur, Hornafjörður og Djúpivogur sameinist í um 3100 manna sveitarfélag á Suðausturlandi. Bæði Skaftárhreppur og Djúpivogur eru í samstarfi við Hornafjörð, Djúpivogur í sorpmálum en að öðru leyti er hann hluti af samstarfi sveitarfélaga á Austurlandi en Hornafjörður er í samstarfi með sveitarfélögum á Suðurlandi. Það þættu því nokkur tíðindi ef Djúpvogur hallaði sér í suðurátt, út úr Norðausturkjördæmi sem hann tilheyrir. „Eftir að sveitarfélagið Hornafjörður fór í Kjördæmi suður þá náttúrulega breyttust samskiptin mikið og við höfum átt í meiri samskiptum austur vegna þess að við fylgjum þeim hluta og við erum hluti af Norðausturkjördæmi,“ segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps. 

Andrés segir að umræða um sameiningu hafi ekki verið mikil á Djúpavogi undanfarið en fyrir nokkrum árum var kannað hverjum íbúar vildu helst sameinast ef slíkt stæði fyrir dyrum. „Flestir íbúar vildu sameinast Fljótsdalshéraði með bættum vegsamgöngum um Öxi og heilsársvegi. Grundvöllur sameiningar er að bæta samgöngur.“

Ætti hins vegar að sameinast til suðurs, til Hafnar í Hornafirði, gætu Lónsheiðargöng auðveldað það samstarf að hans mati en þau eru ekki á áætlunum. Þau myndu taka af hinar snarbröttu Hvalness-  og Þvottárskriður þar sem grjót hrynur á veginn í sífellu. Þar féllu líka snjóflóð í vetur.

Andrés segir að sameining við Breiðdalshrepp hafi verið skoðuð en talin of lítið skref. Sá kostur að taka stærra skref með sameiningu við Breiðdalshrepp og Fjarðabyggð hafi ekki komið til umræðu. „Nei hann hefur ekki verið ræddur.“

Sameiningu við stærri kjarna fylgja hættur, að mati Andrésar. Tryggja þurfi stöðu smærri staða til dæmis með byggðaráðum. „Annars munu íbúarnir ekki kaupa svona sameiningartilögur ef þetta á að verða til þess að öll meiriháttar þjónusta verði rifin af þeim.“