Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dill lokað tímabundið

08.08.2019 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veitingahúsinu Dill í Reykjavík hefur verið lokað tímabundið. Tveimur öðrum veitingastöðum í sama húsi hefur verið lokað fyrir fullt og allt. Einn stofnenda Dills stefnir að því að opna aftur.

Dill var opnað fyrir tíu árum á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis. Gunnar Karl Gíslason var annar tveggja stofnenda Dill og á enn lítinn hlut í honum. Hann var yfirkokkur þar fyrir tveimur árum þegar Dill hlotnaðist hin eftirsótta Michelin-stjarna. Í byrjun þessa árs missti reyndar staðurinn stjörnuna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Gunnar Karl sagði við fréttastofu í morgun að búið væri að loka Dill alla vega tímabundið og enn fremur veitingastöðunum Systir og Mikkeler og friends. Hann segir að í rauninni hafi verið lokað vegna þeirra tveggja síðarnefndu en að þeir séu á sömu kennitölu og rekstrarleyfi. Gatnaframkvæmdir á Hverfisgötu hafi ekki hjálpað. Hann segir að Dill sé ekki farið í þrot, reksturinn hafi gengið mjög vel og mikil aðsókn hafi verið alveg frá upphafi. Hann sé að skoða með fjárfestum hvort hægt er að opna Dill á ný. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á tilkynningum við Mikkeler og friends og Systir stendur að af óviðráðanlegum orsökum sé rekstri lokið á Hverfisgötu 12. Hjá Dill segir að veitingastaðnum hafi því miður verið lokað tímabundið og viðskiptavinum bent á fjóra aðra veitingastaði. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Mynd með færslu