Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Deyjandi býflugur

20.10.2016 - 16:20
Mynd: RÚV / RÚV
Stefán Gíslason fjallar í pistli sínum í dag um rannsókn þar sem sýnt er fram á tengsl milli dánartíðni býflugna og þess hversu margar tegundir eiturefna má finna í býflugnabúi. Pistilinn má lesa hér að neðan.

 

Í grein sem birtist í tímaritinu Nature í síðasta mánuði kemur fram að hópur vísindamanna við Háskólann í Maryland í Bandaríkjunum hafi sýnt fram á tengsl milli dánartíðni býflugna og fjölda eiturefna sem til staðar eru í viðkomandi býflugnabúi. Í rannsókninni sem um ræðir kom með öðrum orðum fram að hættan sem býflugum stafar af hinum ýmsu eiturefnum fer ekki bara eftir styrk efnanna heldur líka fjölda þeirra. Margar rannsóknir hafa áður bent til að tiltekin eiturefni valdi hruni í býflugnastofnum en samverkandi áhrif efnanna hafa ekki áður verið könnuð með þeim hætti sem gert var í þessari rannsókn. Svo virðist sem flugurnar missi einhvern veginn hæfileikann til afeitrunar þegar fleiri efni bætast við, jafnvel þótt hvert efni um sig sé ekki í hærri styrk en svo að býflugur eigi að þola það. Sérstaka athygli vakti að tiltekin sveppaeiturefni, sem hingað til hafa verið talin örugg fyrir býflugur, virðast hafa mikið að segja í þessu sambandi.

 

Dennis vanEngelsdorp, lektor í skordýrafræði við Háskólann í Maryland og einn af höfundum greinarinnar í Nature, segir að niðurstöðurnar sem hér um ræðir gangi í berhögg við eina af grundvallarkennisetningum eiturefnafræðinnar, nefnilega þá að það sé skammtastærðin sem skapi eituráhrifin. Í rannsókninni skoðuðu Dennis og félagar samtals 91 býflugnabú á austurströnd Bandaríkjanna. Í þessum búum fundu þau samtals 93 mismunandi eiturefni, sem höfðu annað hvort safnast fyrir í vaxinu, í frjókornum í búunum eða í vinnuflugunum sjálfum. Á hverjum stað voru mældir þrír þættir, þ.e.a.s. í fyrsta lagi heildarfjöldi varnarefnategunda, í öðru lagi heildarfjöldi varnarefnategunda yfir skilgreindum hættumörkum og í þriðja lagi svonefndur hættustuðull sem er einhvers konar mælikvarði á ætluð samanlögð eituráhrif allra varnarefnanna sem til staðar eru. Allir þessir þættir virtust hafa áhrif á lífslíkur flugnanna, þannig að eftir því sem gildin voru hærri var dánartíðnin hærri og afkomumöguleikar drottningarinnar minni.

 

Eins og fyrr segir vöktu áhrif sveppaeiturefna sérstaka athygli. Í fyrsta lagi kom það flatt upp á vísindamennina hversu mikið af slíkum efnum fannst inni í búunum, en undrunin var enn meiri þegar í ljós kom að þau áttu sinn þátt í flugnadauðanum. Hins vegar kemur það líka ef til vill svolítið á óvart að svonefnd neónikótínoíð virtust ekki leika stórt hlutverk í þessu öllu saman, en þeim hefur á síðustu misserum, öðrum efnum fremur, verið kennt um útbreidda hnignun býflugnabúa austan hafs og vestan.

 

Af þessari rannsókn má draga ýmsan lærdóm, þ.e.a.s. af þeim hluta hennar sem snerist um það hvernig heildarfjöldi efna gat gengið að býflugum dauðum, óháð styrk. Það sem stendur býflugnabændum næst er náttúrulega hvernig draga megi úr notkun varnarefna í landbúnaði, því að þar byrjar þetta allt saman. Býflugurnar fá eiturefnin væntanlega fyrst og fremst í sig þegar þær eru önnum kafnar við að bera frjókorn á milli nytjaplantna sem búið er að úða með eitri. Hluti af lausninni felst þá í því að tryggja að ekki séu notuð fleiri efni en nauðsyn krefur, hvaða nauðsyn sem það nú annars er, og að gæta þess að tímasetningar á úðun taki mið af hagsmunum býflugnanna, sem eru náttúrulega um leið hagsmunir manna, því að ef býflugurnar séu ekki um frjóvgunina er hætt við að uppskeran yrði lítil. En lærdómurinn snýst ekki bara um býflugur, ræktun á amerískum nytjaplöntum eða framleiðslu á hunangi, heldur fela niðurstöðurnar líka í sér áminningu um að samhengið í náttúrunni sé ögn flóknara en okkur hættir stundum til að gera ráð fyrir. Og við getum jafnvel litið okkur nær og látið hugann reika frá amerískum, já og reyndar líka evrópskum, landbúnaðarveruleika yfir í daglegt líf okkar sjálfra, hvort sem við erum á leiðinni í vinnuna, í vinnunni eða í góðu yfirlæti heima hjá okkur. Og hér er ekki bara verið að tala um þann hluta daglega lífsins sem snýst um að nýta afurðir sem væru sjaldséðar ef býflugna nyti ekki við, heldur líka um alla hina hluta daglega lífsins.

 

Til að skýra þetta nú aðeins nánar, þá er líklega óhætt að fullyrða að okkur hætti til að gera ráð fyrir að flest atvik og áföll í lífinu eigi sér einfaldar skýringar, þ.e.a.s. að á milli orsakar og afleiðingar sé einhvers konar bein lína. Okkur hættir sem sagt til að gera ráð fyrir að tiltekið áreiti hafi tilteknar og nokkuð fyrirséðar afleiðingar. Þetta endurspeglast síðan í alls konar leiðbeiningum um skammtastærðir, í reglugerðum um öryggis- eða heilsufarsmörk einhverra efna, leyfilegt hámarksinnihald kadmíums í áburði, rotvarnarefna í snyrtivörum, litarefna í sælgæti, mýkingarefna í plasti og svo mætti lengi telja. Í samræmi við þetta heyrast oft setningar á borð við: „Þetta skiptir ekki nokkru máli, þetta er langt fyrir innan hættumörk“. Og hættumörkin eru yfirleitt fundin út með einhvers konar rannsóknum þar sem tiltekinn skammtur af tilteknu efni er prófaður til að finna út við hversu háan styrk einhver tiltekin skaðleg áhrif byrja að koma fram. Og svo eru hættumörkin höfð talsvert lægri til að taka nú enga óþarfa áhættu. Það sem vill gleymast, og það er einmitt það sem rannsóknin frá Maryland minnir okkur á, er að á sama tíma og við fáum í okkur pínulítið og alveg skaðlaust magn af rotvarnarefni úr sjampóinu okkar, fáum við líka í okkur pínulítið og alveg skaðlaust magn af mýkingarefni úr einhverjum plastbrúsa, pínulítið og alveg skaðlaust magn af BPA úr einhverri niðursuðudós og pínulítið og alveg skaðlaust magn af leysiefni sem gufar upp úr nýja teppinu í barnaherberginu. Og svo fáum við pínulítið og alveg skaðlaust magn af svifryki frá umferð í eftirrétt. Og þó að hvert áreiti eða hvert efni sé kannski alveg skaðlaust eitt og sér, þá geta samanlögðu áhrifin verið stórhættuleg.

 

Hér erum við með öðrum orðum enn og aftur að tala um svonefnd hanastélsáhrif eða kokteiláhrif, þ.e.a.s. samverkandi áhrif fleiri efna. Þetta getur t.d. gerst þannig að eitt efni sem borist hefur inn í líkamann greiði öðru efni leið inn í frumur sem það hefði annars ekki komist inn í. En svo getur þetta líka verið eins einfalt eins og þetta virðist hafa verið í býflugnabúum Dennis vanEngelsdorp og félaga, þ.e.a.s. að þegar fjöldi framandi efna í umhverfinu sé kominn í einhverja tiltekna en óþekkta tölu, missi líkaminn hreinlega tökin á aðstæðunum. Þegar allt kemur til alls erum við ekki bara mjög háð býflugum. Við eru líka mjög lík þeim. Við erum nú einu sinni bara dýr eins og þær, þó að við séum vissulega stærri.

 

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður