Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Deilt um brottvísanir albanskra fjölskyldna

11.12.2015 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að fylgja þurfa lögum í málefnum albönsku fjölskyldnanna, sem sendar voru úr landi. Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingar vill horfa til mannúðarsjónarmiða eins og lögin geri reyndar ráð fyrir.

Katrín Júlíusdóttir og Brynjar Níelsson skiptust á skoðunum í Morgunútvarpinu á Rás tvö um ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa Albönunum úr landi.

Þarf að fara að lögum

Brynjar kvaðst skilja tilfinningar fólks, en að fylgja þurfi lögum. „Við getum sjálfum okkur um kennt í þessu máli, þ.e.a.s. við erum svo lengi að afgreiða þessi mál. Fólkið er búið að koma sér fyrir og börnin komin í skóla. Svo þegar kemur niðurstaða, sem ég geri ráð fyrir að sé samkvæmt lögunum,  þá er þetta orðið svo drastísk aðgerð og vekur svo miklar tilfinningar" segir Brynjar Níelsson. Honum finnst hins vegar tal um að Íslendingar eigi að opna faðminn fyrir öllum sem hingað vilja koma fullkomlega ábyrgðarlaust. „Hvernig halda menn að kerfið verði ef við erum bara með opinn faðminn fyrir hverjum sem er.  Þá verður ekkert kerfi og það verður heldur ekkert heilbrigðiskerfi. Ég segi eins og forsetinn; þetta er barnaleg einfeldni. En svo getum við velt fyrir okkur hvort við verðum ekki að afgreiða þessi mál hraðar þannig að svona mál komi ekki upp."

Fólk af holdi og blóði

Katrín Júlísdóttir leggur áherslu á að samkvæmt lögum eigi að skoða hvert einstakt mál fyrir sig.  „Það er síðan árið 2014, sem að þessi ríkisstjórn ákveður að setja inn lagagrein um þessa lista yfir örugg og óörugg ríki. Við mótmæltum því harðlega einmitt á þeim forsendum að það sem myndi gerast væri einmitt það sem við verðum vitni að í dag. Menn fela sig í skjóli þess að það sé búið að búa til einhverja lista, flokka og kríteríur og þess vegna þurfa menn ekki að skoða hvert einstakt mál fyrir sig. Og að halda því fram að við séum barnalega einföld eða munum stuðla að því að rústa íslensku heilbrigðiskerfi  af því að hingað muni flæða fólk. Auðvitað er það ekki þannig. Við erum að tala um fólk af holdi og blóði, örfáa einstaklinga í hinu stóra samhengi af þeim sem eru á ferðinni um heiminn, sem að velja að koma hingað til Íslands. Þeir eru ofboðslega fáir í raun og veru" segir Katrín. Hún bendir á að á sama tíma og sagt sé nei við vinnandi höndum, fólki sem var komið með vinnu, þá sé veriið að flytja inn fólk í gegnum starfsmannaleigur í hundruða- og þúsundavís. „Það er allt að byrja aftur" segir Katrín Júlíusdóttir.  

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV