Sjálfstæðismenn á Akranesi og framsóknarmenn í Skagafirði buðu öðrum flokkum til meirihlutasamstarfs þrátt fyrir að hafa hvorir um sig nógu marga bæjarfulltrúa til að sitja einir að völdunum. Oddvitar beggja flokka leggja áherslu á að breikka grunn meirihlutasamstarfsins.

Sjálfstæðismenn á Akranesi fengu 41 prósent atkvæða og fimm sæti af níu í bæjarstjórn. Þeir eiga nú í viðræðum við Bjarta framtíð sem fékk 12 prósent atkvæða og einn bæjarfulltrúa. 

Framsóknarmenn í Skagafirði fengu 45% atkvæða og fimm af níu bæjarstjórnarmönnum. Þeir sömdu við Sjálfstæðisflokkinn um meirihlutasamstarf og eru flokkarnir samanlagt með 72 prósent atkvæða og sjö af níu sætum í bæjarstjórn.

Viðbrögð við því að ná meirihluta með minnihluta atkvæða
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir hægt reyna að setja fram einhverjar tilgátur um hvers vegna flokkar reyni að mynda stærri meirihluta en þörf. „Það sem manni auðvitað dettur í hug er að í tveimur af þessum sveitarfélögum, þar sem hreinir meirihlutar eru að bæta við sig samstarfsflokki í meirihluta þar náðu meirihlutarnir meirihluta fulltrúa með all vænum minnihluta atkvæða,“ segir Grétar. „Það kunna að vera viðbrögð þeirra við þeirri stöðu. Að fá fleiri að borðinu.“

Þetta kann að endurspegla þróun sem er hafin. „Það hefur verið dálítill andi í þá átt núna í seinni tíð að menn vilji breiðara samstarf víða á sveitarstjórnarstiginu, og þetta sé skref í þá átt.“

Meiri sóknarfæri fyrir sveitarfélagið
Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði, segir að atkvæðahlutfallið sé eitt af því sem flokkurinn hafi haft til hliðsjónar þegar ákveðið var að ræða við sjálfstæðismenn en fleira hafi komið til. „Það var okkar mat eftir að hafa farið yfir stöðuna þegar tölur lágu fyrir og skoðað marga þætti að þetta væri hagfelldast fyrir sveitarfélagið, að gera þetta með þessum hætti. Við myndum ná að sækja betur fram. Það væru meiri sóknarfæri fyrir sveitarfélagið með þessum hætti en ef við færum ein og sér.“ 

Aðspurður hvort fólk megi eiga von á að sjá meira af því að myndaðir séu auknir meirihlutar svarar Stefán játandi. „Ég bara vona það. Ég held að þetta sé bara hollt og gott. Við sem erum kjörin til setu í sveitarstjórnum hljótum að þurfa að hafa hag sveitarfélagsins alltaf númer eitt, tvö og þrjú. Um það snýst þetta. Hvernig getum við gert sveitarfélagið öflugra og betra? Ef menn telja að þeir nái betri árangri með breiðari sátt þá að sjálfsögðu finnst mér að menn eigi að fara þá leið. Ég vona að þetta verði tekið upp víðar.“

Vildu breikka grunninn
Sjálfstæðismenn á Akranesi fengu meirihluta í bæjarstjórn en ákváðu að bjóða bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar til samstarfs. „Það kemur aðallega til af því að þó við höfum náð meirihluta þá erum við með rétt um 42 prósent atkvæða á bak við okkur. Við vildum skoða það að breikka þann grunn,“ segir Ólafur Adolfsson, oddviti Sjálfstæðisflokks. Þess vegna hafi sjálfstæðismenn ákveðið að ræða við öll framboðin og síðan gengið til viðræðna við Bjarta framtíð. Niðurstaðan úr þeim ætti að liggja fyrir fljótlega eftir helgi.

„Okkur finnst mjög mikilvægt að það sé góð samstaða innan bæjarstjórnar um þau málefni sem varða bæinn. Ég held að það sé í rauninni aðalhvatinn að því að við viljum breikka þennan grunn. Björt framtíð var góður kostur að okkar mati í því.“

Stærri meirihlutar víðar
Í Mosfellsbæ hafa sjálfstæðismenn boðið Vinstri-grænum til meirihlutasamstarfs þriðja kjörtímabilið í röð, þrátt fyrir að nú og á síðasta kjörtímabili hafi sjálfstæðismenn getað myndað meirihluta sjálfir.

Reykjavík, Samfylkingin og Björt framtíð ræða við hvort tveggja Vinstri-græn og Pírata þegar þeim dygði að tala við annan hvorn flokkinn.

[email protected]

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi