Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Deila um hvort klettskurður hafi verið lögbrot

15.10.2018 - 18:57
Umhverfisstofnun telur að Fjarðabyggð hafi farið út fyrir valdmörk sín og ekki stundað vandaða stjórnsýslu þegar sveitarfélagið leyfði listamanni að skera út í kletta á Stöðvarfirði. Áletranir á náttúrumyndanir séu lögbrot. Bæjarstjórinn hafnar þessu og segir ekkert einstakt við klettana.

Bandaríski listamaðurinn Kevin Sudeith skar út lágmyndir í kletta á Stöðvarfirði í sumar, stóran reiðmann og nokkra litla fugla. Myndirnar nýtti hann svo líka sem eins konar stimpla til að búa til pappírsverk sem hann hefur sýnt meðal annars í New York. Hann fékk leyfi hjá sveitarfélaginu og landeigendum en Umhverfisstofnun vill einnig vera með í ráðum. Bréf hafa gengið á milli stofnunarinnar og Fjarðabyggðar, sem ekki eru sammála um túlkun á náttúruverndarlögum, hvort klettarnir teljist náttúrumyndanir. Áritun á slík fyrirbæri er refsiverð. Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur fordæmt ávíturnar og telur klettana ekki náttúrumyndanir. Í lagaskilgreiningu segir um náttúrumyndanir. „Einstakt fyrirbrigði í náttúrunni sem að jafnaði sker sig úr umhverfinu, t.d. foss, eldstöð, hellir, drangur, einstakt tré eða gamall skógarlundur.“

„Okkar sérfræðingar sögðu að þetta væru dæmigerðir berggangar sem samkvæmt riti Þorleifs Einarssonar eru mjög algengir á Íslandi og þar af leiðandi hljóta að teljast ekki einstakir og þar af leiðandi falli þeir ekki undir 16. tölulið 5. greinar. Það var álit okkar sérfræðinga og á því byggir nefndin niðurstöðu sína þannig að þarna var unnið mjög faglegt mat á þessu,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð.

Umhverfisstofnun segir hins vegar í bréfi til Fjarðabyggðar að í athugasemdum með 5. grein náttúruverndarlaga komi fram að náttúrumyndanir hafi að miklu leyti sömu merkingu og jarðmyndanir en í jarðfræði sé það hugtak notað um samhangandi einingu úr bergi. Stofnunin telur að Fjarðabyggð hefði átt að bera lagatúlkun undir stofnunina og hvort umsögn eða leyfi þyrfti fyrir áletrunum af þessu tagi.

„Við erum allavega ánægð með þá niðurstöðu Umhverfisstofnunar að aðhafast ekki frekar þar sem þetta hefði þá bitnað á þriðja aðila sem var listamaðurinn sem var þarna að störfum í góðri trú með leyfi landeiganda og sveitarfélagsins. Mönnum þykir þetta bara fallegt og að þetta sé ekki fyrir neinum þar sem þetta sjáist ekki frá veginum, sé bara fallegt listaverk,“ segir Karl Óttar.

Bæjarráð ásamt bæjarstjóra hafa óskað eftir fundi með forstjóra Umhverfisstofnunar til að fara yfir samskipti og ferla mála hjá stofnuninni.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV