Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Deila myndum af sjálfskaða á Instagram

31.10.2019 - 22:14
Mynd: NRK / NRK
Um þúsund ungar konur og stúlkur deila myndum af sjálfskaða á leynilegu tengslaneti á samfélagsmiðlum. Um helmingur þeirra er frá Noregi, minnst fimmtán þeirra hafa svipt sig lífi.

Stúlkurnar eiga það sameiginlegt að glíma við andleg veikindi af einhverju tagi. Rannsókn norska ríkisútvarpsins NRK leiddi í ljós að margar þeirra hafa ítrekað reynt að stytta sér aldur. Ein þeirra fimmtán norsku stúlkna sem sviptu sig lífi var Andrine. Hún var aðeins sautján ára þegar hún lést í mars 2017. Eigur hennar höfðu legið í kössum í næstum tvö ár ósnertar þegar móðir hennar fékk sig loks til þess að fara í gegnum þær. Þar fann hún farsíma Andrine og uppgötvaði leynilegan aðgang sem hún hafði á Instagram til þess að eiga í samskiptum við þúsund aðrar stúlkur. 

Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Andrine var aðeins 17 ára þegar hún svipti sig lífi.

Myndirnar og myndskeiðin sem þar eru birt eru af skjálfskaða stúlknanna og jafnvel sjálfsvígstilraunum. NRK fékk leyfi móður Andrine til þess að birta myndir frá dóttur hennar, til að varpa ljósi á þetta leynilega samfélag sem telur um þúsund ungar konur og stúlkur. Ein þeirra sem tók virkan þátt í því er Sofie. „Í fyrsta sinn sem ég fór á bráðamóttökuna hitti ég stelpu sem sagði að ég yrði að fylgja henni á Instagram. Ég spurði hana hvað þetta væri eiginlega. Þá sagði hún að ég yrði að stofna nýjan aðgang til að komast inn á þetta leynilega Insta,“ segir Sofie. 

Heilsu Sofie hrakaði ört eftir að hún varð hluti af þessum hóp. „Það er vegna þess að þetta var keppni um það hverri leið verst, hver var veikust. Þær sem voru grennstar og sköðuðu sig mest voru mest metnar,“ segir Sofie. Heidi, móðir Andrine, telur að leynilegt líf hennar á netinu hafi gert illt verra. „Ég hef alltaf hugsað að hefði hún ekki haft netið sem vettvang hefði þetta ekki farið eins illa og það fór.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV