Debet- og kreditkorthafar með sama rétt

30.03.2019 - 07:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Farþegar WOW air hafa sama rétt til endurkröfu hvort sem þeir greiddu ferð sína með debet- eða kredit korti. Mikið álag hefur verið hjá kortafyrirtækinu Borgun síðan starfsemi WOW var hætt í fyrradag.

„Það hafa nokkur hundruð endurkröfur borist til okkar vegna WOW air. Við búumst svo sem við að það bætist við á næstunni. Fólk er svona að taka saman gögnin sín og útfylla eyðublöðin og koma sínum málum á framfæri,“ segir Bergþóra Karen Ketilsdóttir, forstöðumaður viðskiptavers Borgunar.

Viðskiptavinir WOW air sem sækja um endurgreiðslu verða að leggja fram gögn sem sýna að þeir hafi pantað ferð sem svo var aldrei farin. Engu skiptir hvenær ferðin var pöntuð eða hvort búið er að greiða kortareikning eða ekki. Þá hafa viðskiptavinir sem greiddu með debetkorti sama rétt og þeir sem greiddu með kreditkorti.

Töluvert álag hefur verið hjá Borgun eftir gjaldþrot WOW air. „Við vinnum eins hratt og mögulegt er og gerum okkar besta til að þetta gangi eins hratt fyrir sig og hægt er.“ Fjölgað hefur verið í þjónustuveri Borgunar til að taka við símtölum og tölvupósti farþega WOW þessa dagana. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi