Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

DDT í Úlfljótsvatni

19.01.2012 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Miklu magni af skordýraeitrinu DDT var dreift í nágrenni við Úlfljótsvatn og í vatnið sjálft þegar verið var að byggja Steimgrímsstöð fyrir rúmum fimmtíu árum. Efnið finnst enn í jarðvegi og setlögum á svæðinu.

Framkvæmdir við Steingrímsstöð hófust vorið 1957. Upp komu ýmis vandamál við bygginguna en eitt þeirra hlýtur að teljast nokkuð sérstakt - en það er að mývargur gerði starfsmönnum lífið leitt. Dæmi voru um að þeir sem þoldu mýið illa flúðu úr vinnu á svæðinu.

„Ef þú varst í ljósum jakka gat hann orðið svartur af flugu og ég í bílnum þá mokaði maður þessu stundum út með skóflum,“ sagði Páll Sigurjónsson verkfræðingur sem vann þarna um tíma.

Ný skýrsla sem verkfræðistofan Verkís hefur unnið fyrir Landsvirkjun sýnir hvernig brugðist var við vandanum með því að dreifa gríðarlegu magni af skordýraeitrinu DDT á svæðinu.

Sú aðferð að dreifa eitrinu á þurru landi skilaði ekki árangri og því var leitað til sérfræðinga hjá Háskóla Íslands. Þeir ráðlögðu mönnum að blanda eitrinu út í steinolíun. Það var gert og olíunni og eitrinu var hellt út í Sogið hér talsvert fyrir ofan. Sú aðferð skilaði árangri og stuttu síðar var bitmýið nánast alveg horfið

Í skýrslunni kemur fram að magn DDT á svæðinu hafi verið mælt árið 2000 og 2001. Þá hafi DDT mælist í einu gróðurþekjusýni og síðan í tveimur jarðvegssýnum af fjórum. Þegar aftur var mælt árið 2011 bregður hinsvegar við að ddt efni í jarðvegssýnum mældust vel yfir greiningarmörkum í öllum jarðvegssýnum og í þremur setsýnum af fimm. Í skýrslunni segir að ddt efni sé helst að finna norðarlega í Úlfljótsvatni, skammt frá Steingrímsvirkjun en þó hvergi í slíku mæli að það geti skapað hættu eða valdið mönnum eða dýrum skaða.
En efnið er hinsvegar hættulegt þó það sé ekki bráð eitrað við fyrstu snertingu.

„Menn eru kannski þær lífverur sem eru í hvað mestri hættu, vegna þess að menn lifa lengur en flestar lífverurog borða meira af kjöti og DDT er ekki vatnsleysanlegt efni sem menn losna auðveldlega við heldur safnast það saman í fituríkum vefnum eins og lifur sérstaklega,“ sagði Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur í viðtali við fréttastofu RÚV.