Dawn komin á braut um Seres

06.03.2015 - 17:44
epa04650463 A handout photo provided by National Aeronautics and Space Administration (NASA) on 06 March 2015 of dwarf planet 'Ceres' taken by NASA's Dawn spacecraft on 01 March which, according to a Nasa press release, has become the first
 Mynd: EPA - NASA
Dawn, könnunarfar á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, er komið á braut um dvergreikistjörnuna Seres, sem tilheyrir smástirnabelti milli Mars og Júpíters. Þetta var staðfest af talsmanni NASA síðdegis í dag.
Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem geimfar hefur verið sent á sporbaug um dvergreikistjörnu og ef áætlanir ganga upp mun Dawn, eða Dögun, vera á sveimi umhverfis Seres næstu 16 mánuðina í upplýsingaöflun, en vísindamenn vonast til að verða einhverju nær um uppruna sólkerfisins fyrir vikið. Dögun er búin að ferðast  tæplega fimm milljarða kílómetra á sjö og hálfu ári og komst inn í aðdráttarsvið Seresar um hádegisbil að íslenskum tíma. Það er nú um 40.000 kílómetra frá yfirborði dvergplánetunnar, en stefnt er að því að lækka flugið smám saman næsta mánuðinn uns aðeins nokkur hundruð kílómetrar aðskilja hnött og flaug.
 
Drög að plánetu 
Smástirnabeltið sem Seres tilheyrir er gríðarstórt og er á braut umhverfis sólu miðja vegu milli Mars og Júpíters. Seres er langstærsta, einstaka himintunglið í þessu belti, um 950 kílómetrar að þvermáli, og það eina sem nær þvi að flokkast sem dvergpláneta. Næst stærst er smástirnið Vesta, sem er um 525 kilómetrar að þvermáli, en Dögun kom einmitt við þar á leið sinni til Seresar fyrir fjórum árum og tók þar fjölda mynda þá mánuði sem hún var þar á sveimi.

Vísindamenn telja bæði Seres og Vestu vera dæmi um verðandi plánetur, hnetti sem hefðu mögulega stækkað og þróast upp í fullvaxnar plánetur við önnur og hagstæðari skilyrði, og því sérlega áhugaverðar fyrir þau sem einbeita sér að rannsóknum á uppruna sólkerfisins. „Þessir hnettir hættu hinsvegar að þróast áður en þeir náðu því stigi þannig að þeir eru í raun hálfgerð tímahylki frá upphafi sólkerfisins okkar, sem er aðalástæðan fyrir því að Dögun var send þangað til að rannsaka þá rækilega,“ hefur BBC eftir Dr. Carol Raymond, einum aðalstjórnanda rannsóknarleiðangursins. 

Talið er að kjarni Seresar sé úr bergi, þar utan um sé ís sem svo aftur er hulinn bergskorpu. Ein stærsta og mikilvægasta spurningin sem menn vonast til að fá svar við er hvort vatn í fljótandi formi leynist í undirdjúpum Seresar, eins og sum reiknilíkön gera ráð fyrir að geti verið tilfellið. 

Plútó er næstur 

Seres er ein fimm dvergpláneta í sólkerfinu og sú sem er næst sólu. Næst kemur Plútó, en annað könnunarfar NASA, Horizon, mun fljúga nálægt honum síðar á þessu ári. Enn utar hringsóla síðan þrjár til, þær Hámea, Eris og Makemake. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV