Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Davíð segist hafa varað Geir við

06.03.2012 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Oddsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, segist hafa varað Geir H. Haarde við háskanum á fjármálamörkuðum en vantað hafi upp á trúnað og traust Geirs á orð hans.

Davíð hefur verið spurður almennt um bankakerfið og ástæður hrunsins. Hann sagði að sig hafi grunað lengi að ekki væri allt með felldu í rekstri bankanna og hafi nefnt það við Geir. Slíkri skoðun hafi þó verið erfitt að halda fram enda fátt sem studdi þann grun og alls ekki árshlutauppgjör bankanna sem sýndu mikinn hagnað.

Davíð sagði að í „míníkrísunni“ svokölluðu árið 2006 hafi staðið ansi tæpt fyrir bankana. Til dæmis hafi Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, hringt í Davíð á laugardegi vegna þess að bankastjórar viðskiptabankanna töldu að bankarnir færu allir á hausinn á mánudegi. Af því varð ekki en Davíð sagði þetta sýna hve tæpt hlutirnir stóðu.

Davíð sagði að svo virðist sem ekki hafi verið hlustað nóg á varnaðarorð Seðlabankastjóranna og sagði sömuleiðis að hann og Geir hafi ekki fundað nógu oft. Lítil formlegheit hafi verið í samskiptum þeirra, enda mótist þau af löngu samstarfi.

Fram kom í máli Davíðs að á frægum fundi hans með Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðhera, þann 7. Febrúar árið 2008, hafi Ingibjörg lagt til að gjaleyrisforðinn yrði aukinn um 30 til 40 milljarða evra til bjargar bönkunum. Davíð sagði að það hefði verið ómögulegt að gera enda hefði slíkt aukið áhættusækni bankanna um helming.

Davíð sagðist enn fremur hafa verið sannfærður um mánaðarmótin september/október að bankarnir myndu falla. Segist hann hafa undirbúið aðgerð í Seðlabankanum.