Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Davíð rifjar upp viðlagaæfingu

06.03.2012 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlankastjóri, sagði fyrir landsdómi í dag um samráðshóp um fjármálastöðugleika að menn hefðu sett af stað sinn eigin innri varúðarhóp til að undirbúa möguleg áföll.

Þetta hafi verið ígildi almannavarnaskýrslu sem hægt væri að nota. Davíð sagði að starfið í samráðshópnum hefði mátt vera markvissara. Hópurinn hafi meðal annars verið settur á fót til þess að þekking kæmi saman, að ekki sæti hver í sínu horninu, og að stjórnkefið væri búið að venja sig á það að tala saman með tilteknum hætti ef til krísu kæmi. Davíð greindi frá því að gerðar hefðu verið samnorrænar viðlagaæfingar þar sem banki hafi farið „á hausinn“. Bankinn hafi ekki verið nafngreindur en hann minni að Kaupþing hafi verið í hlutverkinu. 

Menn hafi talið eftir æfinguna að hún leiddi það meðal annars í ljós að ríkið væri ekki búið að gera upp við sig hvernig ætti að bregðast við ef slíkt gerðist í raun og veru. Hann kvaðst þó ekki segja þetta í gagnrýnistóni. Ef Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu vitað að ríkið væri búið að gera upp við sig að bönkum yrði bjargað hefði það í sjálfu sér getað haft vandkvæði, „moral hazard“, í för með sér.

Laust eftir klukkan þrjú byrjaði Helgi Magnús Gunnarsson, varsaksóknari Alþingis, að spyrja Davíð út í fyrsta ákærulið af fjórum í ákæru Alþingis gegn Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Þar er Geir ákærður fyrir að hafa vanrækt að sjá til þess að aðgerðir samráðshóps um fjármálastöðugleika væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri. 

Áður höfðu spurningar saksóknara og vitnisburður Davíðs snúist almennt um ástæður bankahrunsins.