Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Davíð: Geir hefði getað sagt af sér

06.03.2012 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, sagði fyrir landsdómi í dag að það eina sem Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði getað gert í september 2008 hefði verið að segja af sér. Það hefði hins vegar verið ábyrgðarlaust.

Þetta kom fram þegar Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði um hvað Geir hefði getað gert í aðdraganda hrunsins.

Andri spurði Davíð margra almennra spurninga um aðdraganda bankahrunsins. Þegar skýrslutakan hafði staðið í tvær klukkustundir, og eftir að Markús Sigurbjörnsson, forseti landsdóms, benti á að með þessu áframhaldi myndi hún dragast fram á nótt, vék Andri strax að fyrsta ákæruliðnum í ákæru Alþingis gegn Geir. Sá liður snýst um samráðshóp um fjármálastöðugleika. Andri var mjög fljótur að spyrja Davíð um þetta efni. Í svari Davíðs kom fram að hann hefði ekki nefnt við Geir H. Haarde það sem áður hafði komið fram um að Davíð hefði ekki fundist vinna samráðshóps um fjármálastöðugleika markviss.

Eftir að spurningum Andra lauk leit Markús forseti yfir dómarahópinn við háborðið í salnum til að athuga hvort aðrir dómarar vildu spyrja Davíð almennt um málið eða um fyrsta ákæruliðinn. Svo var ekki.

Helgi Magnús Gunnarsson, varasaksóknari Alþingis, fékk þá orðið og byrjaði að spyrja Davíð um annan ákæruliðinn af fjórum. Þar er Geir sakaður um „að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi,“ eins og það er orðað í ákærunni.

Þegar klukkuna vantaði nokkrar mínútur í fimm var Davíð að svara spurningum saksóknara um þennan ákærulið. Meðal annars kom fram í máli Davíðs að hann teldi að orð seðlabankastjóra Bretlands um aðstoð við að minnka bankakerfið hafi verið innihaldslaus. Aðstoðina hafi King seðlabankastjóri boðið í höfnunarbréfi um gjaldeyrisskiptasamning. Það sagðist Davíð telja aðalmál bréfsins, hitt væri aukaatriði.

Klukkan fimm tók verjandi Geirs til við að spyrja Davíð um sama ákærulið.