Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dauði Khashoggis og hræsnin

25.10.2018 - 16:07
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, Jamal Khashoggi og Recep Tayyip Erdogan. - Mynd: RÚV / RÚV
Um fátt hefur meira verið fjallað á síðustu vikum en morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Það hefur nánast komið af stað milliríkjadeilu á milli Tyrklands og Sádi-Arabíu. Málið snýst þó um miklu meira en örlög eins blaðamanns, hræðileg örlög hans hafa í raun snúist upp í valdabaráttu tveggja manna sem báðir vilja láta líta á sig sem leiðtoga múslima í heiminum.

„Dauði eins manns er harmleikur, dauði milljóna er tölfræði.“

Þessi ummæli eru, reyndar ranglega, höfð eftir Jósef Stalín, fyrrverandi einræðisherra og harðstjóra í Sovétríkjunum.

Þau hafa sjaldan átt eins vel við og í fréttum undanfarinna vikna af morðinu á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Aðalpersónur þessa harmleiks, fyrir utan Khashoggi sjálfan, eru annars vegar Mohammed bin Salman, prins í Sádi-Arabíu og Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands. Hlutverk þeirra eru ólík en í framkomu beggja í málinu, sem og í frásögnum fjölmiðla af málinu endurspeglast ómæld hræsni og tvískinnungur.

Prinsinn

Mohammed bin Salman er krónprins Sádi-Arabíu og í reynd leiðtogi landsins, þar sem faðir hans, Salman konungur, þjáist af alzheimer. Hann tók við völdum í landinu í júní í fyrra, og hefur verið mjög upptekinn við að skapa sér jákvæða ímynd á Vesturlöndum. Hann fór til að mynda í nokkurs konar kynningarferð til Bandaríkjanna í mars á þessu ári til þess að afla sér vinsælda og jákvæðrar umfjöllunar. Hann var meðal annars á forsíðu Time og mætti í viðtal hjá fréttaskýringaþættinum 60 mínútum og ófáar fréttir hafa verið fluttar af efnahagslegum og félagslegum umbótum í landinu á síðustu misserum.

Hins vegar sætir í raun undrun að bin Salman skuli ekki gagnrýndur harðar á Vesturlöndum en raun ber vitni og að það þurfi dauða eins blaðamanns til þess að fólk fái þá mynd af prinsinum að hann stjórni landi sínu, þegnum og öllu umhverfi af vægðarlausri hörku.

Því það er af nógu að taka:

Afsögn forsætisráðherra Líbanons: Saad Hariri, þáverandi forsætisráðherra Líbanons, heimsótti Ryiadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, í nóvember í fyrra. Þegar við komuna var farsíminn hans tekinn af honum og daginn eftir sagði hann af sér embætti í ávarpi sem var sent út beint í sjónvarpi. Almenningur í Líbanon brást ókvæða við og taldi að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hefðu í raun rænt Hariri og þvingað hann til afsagnar. Forseti landsins neitaði að samþykkja afsögnina og krafðist þess að sádiarabísk stjórnvöld létu Hariri lausan. Hariri sneri aftur til Beirút nokkrum vikum síðar og dró afsögn sína til baka. Almennt er talið að prins Mohammed bin Salman hafi leikið lykilhlutverk í þessari kostulegu uppákomu.

Jafnrétti í Sádi-Arabíu: Prinsinn ákvað að sýna umheiminum í byrjun þessa árs hversu jafnréttissinnaður hann væri með því að veita konum í landinu heimild til þess að taka bílpróf. Skömmu áður voru nokkrar kvenréttindakonur í landinu fangelsaðar og sumar þeirra eiga yfir höfði sér dauðadóma. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt handtökurnar og fullyrt að prinsinn standi á bak við þær til þess að sýna að gagnrýni á stjórnvöld sé ekki liðin. Prinsinn sagði í viðtali við Bloomberg fyrir skömmu að sumar þessara kvenna væru á mála hjá erlendum leyniþjónustum og að þær hefðu reynt að skaða hagsmuni ríkisins.

Kanada refsað: Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, blandaði sér í fangelsun kvennanna í ágúst. Hann krafðist þess að þær yrðu látnar lausar og hann skoraði á stjórnvöld að gera skurk í mannréttindum í Sádi-Arabíu. Sádi-Arabar brugðust skjótt við ákallinu, ráku sendiherra Kanada úr landi, stöðvuðu öll viðskipti við landið og skipuðu sádiarabískum námsmönnum í Kanada að yfirgefa landið.

Milljarðamæringar handteknir: Prinsinn hefur ekki aðeins fangelsað baráttumenn mannréttinda, í fyrra handtók leyniþjónusta landsins hundruð milljarðamæringa í landinu og hélt þeim vikum saman innilokuðum á Ritz-Carlton hótelinu í Riyadh (á þessu sama hóteli er nú haldin stór fjármálaráðstefna þar sem fjölmargir vestrænir fjárfestar og fjölmiðlar afboðuðu þátttöku vegna morðsins á Khashoggi). New York Times sagði að sumir þeirra hefðu verið beittir ofbeldi og að 17 hefðu þurft að leita læknis. Sérfræðingar í málefnum Sádi-Arabíu töldu einsýnt að prinsinn væri að fjarlægja fólk sem gæti ógnað honum. Hann hélt því sjálfur fram að hann væri með þessu að ráðast til atlögu við spillingu í landinu.

Stríðið í Jemen: Árið 2015 hóf Sádi-Arabía afskipti af borgarastríðinu í Jemen. Með aðstoð Bandaríkjanna hefur her Sádi-Araba staðið fyrir um 16.000 árásum, úr lofti og frá landi á vígi Houthi-fylkingarinnar sem berst gegn stjórnvöldum og nýtur liðsinnis íranskra stjórnvalda. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt her Sáda fyrir að ráðast miskunnarlaust á sjúkrahús, skóla og aðrar opinberar byggingar þar sem almennir borgarar og börn verða skotmörk og fórnarlömb. Meira en 10.000 manns hafa látið lífið í stríðinu í Jemen og þúsundir til viðbótar vegna hungursneyðar í landinu, en Sádi-Arabar hafa lokað höfninni í Hodeidah og þannig komið í veg fyrir að matur og aðrar nauðsynjar berist til nauðstaddra.

Allt ofantalið hefur ratað í fréttir á Vesturlöndum, en ekkert af þessu, ekki einu sinni loftárásir Sádi-Araba á rútur fullar af skólabörnum í Jemen, hefur hlotið viðlíka athygli og þegar blaðamaðurinn Jamal Khashoggi rölti inn á ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi og sneri ekki þaðan aftur. Hann var myrtur og það væri að æra óstöðugan að fara í saumana á dauðdaga hans, enda er það í sjálfu sér ekki efni þessa pistils.

Forsetinn

Þriðjudagurinn 2. október og dagarnir þar á eftir beina kastljósinu að hinni aðalpersónu þessa sjónarspils: Recep Tayyip Erdoğan, forseta Tyrklands. Erdoğan hefur, nánast frá hvarfi Khashoggis, slegið um sig með stóryrtum yfirlýsingum um að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi látið myrða Khashoggi og að hann muni einskis láta ófreistað til þess að komast að sannleikanum og láta hina seku gjalda fyrir þetta grimmilega athæfi. Á stundum hafa yfirlýsingar Erdoğans verið með þeim hætti að menn gætu freistast til þess að trúa því að Erdoğan væri kyndilberi tjáningarfrelsis á Vesturlöndum.

En það er ekki svo. Reyndar mjög fjarri því.

Málið snýst í hnotskurn um baráttu þessara tveggja manna um forystu í hinum íslamska heimi.

Erdoğan hefur, allt frá því hann tók við embætti forsætisráðherra árið 2002, unnið að því að íslamsvæða Tyrkland. Hann hefur fjarlægst Evrópu og nálgast Mið-Austurlönd og unnið að því að íslam verði möndull stjórnmála í Tyrklandi og utanríkismálastefna Tyrklands hefur í leiðinni orðið æ fjandsamlegri Vesturlöndum.

Erdoğan vinnur leynt og ljóst að því að verða leiðtogi hins íslamska heims, hann hefur reyndar sagt að Tyrkland sé eina ríkið sem geti leitt hinn íslamska heim. Þetta leiðir óhjákvæmilega til árekstra við stjórnvöld í Sádi-Arabíu og þar með prinsinn, Mohammed bin Salman, en tvær helgustu borgir íslams eru í Sádi-Arabíu, Mekka og Medína, og konungsfjölskyldan þar í landi lítur nánast á sig sem hina einu réttbornu leiðtoga hins íslamska heims.

Tyrkland er sömuleiðis bandalagsríki Katars, en Sádi-Arabía rauf stjórnmálasamband við Katar fyrir rúmu ári, setti viðskiptabann á landið og lokaði landamærunum að landinu. Tyrkland og Katar eru í ágætu sambandi við stjórnvöld í Íran, sem er erkiandstæðingur Sádi-Araba og bæði ríki styðja Bræðralag múslima sem er eitur í beinum stjórnvalda í Sádi-Arabíu.

Fjaðrafok Erdoğans vegna hryllilegra örlaga Khashoggis er því í reynd lítið annað en tilraun hans til þess að koma höggi á prinsinn í Sádi-Arabíu, auk þess sem hann sér þetta sem tækifæri til þess að styrkja böndin við Bandaríkin.

Blaðamenn í Tyrklandi

Erdoğan verður seint sakaður um að láta sér annt um velferð blaðamanna eða tjáningarfrelsi þeirra. Samkvæmt alþjóðasamtökunum The Committee to Protect Journalists, sem berjast fyrir réttindum blaðamanna til þess að fá að starfa í friði fyrir stjórnvöldum, er Tyrkland það ríki í heiminum sem fangelsað hefur flesta blaðamenn á síðustu árum. Frá því að herinn gerði misheppnaða byltingartilraun sumarið 2016 hafa rúmlega 230 blaðamenn verið fangelsaðir og þar dúsa nú 73 blaðamenn í fangelsi. Daginn eftir að Jamal Khashoggi hvarf og týndi lífi, staðfesti áfrýjunarréttur í Istanbúl lífstíðardóma yfir fjórum tyrkneskum blaðamönnum.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV